Strandsiglinganefnd

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:43:14 (6908)

2004-04-27 17:43:14# 130. lþ. 104.14 fundur 811. mál: #A strandsiglinganefnd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með að strandsiglinganefnd hefði ekki verið skipuð. Þessi þáltill. var til umfjöllunar í þinginu og niðurstaðan varð sú að leggja til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég lít svo á að þegar svo háttar til sé það fyrst og fremst í þeim tilgangi að koma skilaboðum í tillögunni í greinargerð til skila. Þar með er ekki hægt að gera ráð fyrir því að ráðherrar skipi þá nefnd sem tillagan var gerð um en ekki var fallist á í þinginu.

Ég gerði grein fyrir því að efni greinargerðarinnar ætti erindi í starf ráðuneytisins, m.a. vegna endurskoðunar á samgönguáætlun og ég legg áherslu á að það verði gert. Að sjálfsögðu þurfum við, bæði í ráðuneytum og stofnunum, að huga stöðugt að því hvaða leiðir eru færar til að auka hagkvæmni í flutningum. Ég tel einsýnt að auðvitað þurfum við stöðugt að vera á varðbergi og skoða hvort sjóflutningarnir eigi framtíð fyrir sér, þ.e. strandsiglingarnar. Þróunin hefur ekki verið sú. Ástæða þess liggur kannski ekki alveg á borðinu en ég tel hins vegar eðlilegt að skoða það.

Hvað varðar Baldur, sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi, þá sinnir hann tiltekinni þjónustu vegna þess að vegurinn um Barðaströnd lokast oft að vetrinum. Við sjáum fram á að ráðin verði bót á því innan tíðar. Ég á ekki von á öðru en að siglingar um Breiðafjörð verði áfram. En ég efast um að þær verði til vöruflutninga. Ég ítreka að þessi mál eru til skoðunar í tengslum við endurskoðun á samgönguáætlun.