Flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:54:51 (6913)

2004-04-27 17:54:51# 130. lþ. 104.15 fundur 938. mál: #A flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Málið sem hér er til umræðu er mikilvægt. Ég þakka fyrir að það er tekið upp. Ég tel að það sem hæstv. ráðherra sagði, þ.e. að þessar takmarkanir hafi gefist vel og að engir hnökrar hafi orðið á framkvæmd þeirra, gefi fyrst og fremst tilefni til að skoða hvort ekki eigi að þrengja þetta enn frekar og gera það sem allra fyrst vegna þess að enginn vill eiga á hættu að slys verði í þessum göngum vegna hættulegra efna, sprengiefna, gass eða bensíns sem flutt er þarna um. Það er þröngt að keyra í gegnum göngin og auðvitað er hætta á árekstrum og slysum og alveg sérleg hætta á því að það gerist við framúrakstur í göngunum hérna að sunnanverðu. Þetta er umhugsunarefni. Menn þurfa að skoða þetta vel. Mér finnst að full ástæða sé til þess að endurskoða þetta strax úr því að þrengingin sem komin er hefur skilað góðum árangri.