Flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:59:34 (6916)

2004-04-27 17:59:34# 130. lþ. 104.15 fundur 938. mál: #A flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Í svari mínu áðan kom fram að þær reglur sem eru í gildi og voru hertar frá því sem áður var eru ársgamlar. Þær voru settar 10. apríl 2003. Þær voru settar að undangenginni ítarlegri skoðun nefndar og eftir umfjöllun lögreglu og dómsmrn. á þeim tíma þannig að ég tel í því ljósi að væntanlega hafi verið lagt á ráðin um þessar reglur með öll þau sjónarmið í huga sem hér hafa komið fram.

Auðvitað vitum við að ekki verður aftur snúið ef slys verður og slys geta orðið hvenær sem er alls staðar á þjóðvegum landsins. Því miður eru þau allt of tíð.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurðist fyrir um hvort ég hugsaði mér að beita mér fyrir frekari uppbyggingu vegarins fyrir Hvalfjörð. Það er ekkert á dagskrá um það. Vegurinn fyrir Hvalfjörð afkastar ágætlega þeirri umferð sem þar fer um og enginn teikn eru á lofti um sérstaka þörf fyrir aðgerðir þar eins og nú háttar.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurðist fyrir um hvaða viðmiðanir lægju til grundvallar þessum reglum. Hann nefndi erlenda staðla. Að því er ég best veit var reynt að nýta staðla sem notaðir eru í Evrópusambandsríkjunum og ríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis. Auk þess þarf auðvitað að líta til reynslu okkar hér. En hvað um það.

Ég tel, eins og ég sagði í svari mínu, eðlilegt að fara yfir þetta með það að leiðarljósi að tryggja sem best öryggi í þessum göngum. Ég vænti góðs samstarfs við alla um það.