Afsláttarkort Tryggingastofnunar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:17:52 (6924)

2004-04-27 18:17:52# 130. lþ. 104.17 fundur 713. mál: #A afsláttarkort Tryggingastofnunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að þrátt fyrir góðan vilja og góðan ásetning hafa afsláttarkortin ekki náð tilgangi sínum. Þó að Tryggingastofnun kynni afsláttarkortin, bæði á spjöldum og á heimasíðunni, er sú kynning ekki aðgengileg og sérstaklega ekki fullorðnum. Ég tel að það vanti upp á að það komi í fjölmiðlum, annaðhvort með stuttum auglýsingum í sjónvarpi eða blöðum, áminningar og ábendingar þannig að þessu sé haldið að fólki. Það vantar sannarlega upp á það. Eins er með fyrirkomulagið. Miðað er við áramót og fólk áttar sig ekki á því að það þurfi að halda til haga hverri einustu kvittun sem það fær varðandi komugjöld. Við teljum að hver ferð til læknis sé alveg einstök og að við þurfum ekkert að koma það sem eftir er ársins. Það eru ekki nema þeir sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda sem halda kvittunum til haga og svo líður árið og ef það koma upp veikindi undir árslok er ekki öruggt að fólk fái endurgreitt sem það hefði annars átt að fá.

Ég er ekki að mæla með samkeyrslu persónuupplýsinga, alls ekki, en tel að með betri og markvissari kynningu, sem höfðar sérstaklega til þeirra hópa sem fram kom í rannsókninni að nýta sér ekki afsláttarkortin þrátt fyrir að þeir hefðu átt að fá endurgreiðslu, nái afsláttarkortin betur tilgangi.