Afsláttarkort Tryggingastofnunar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:20:05 (6925)

2004-04-27 18:20:05# 130. lþ. 104.17 fundur 713. mál: #A afsláttarkort Tryggingastofnunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ábendingar sem hafa komið fram. Þetta er áríðandi mál sem hér er um að ræða. Það er full þörf á að halda kynningunni eins öflugri og unnt er, að fólk sé meðvitað um rétt sinn í þessu efni. Það kann að vera að auglýsingar í sjónvarpi og blöðum muni vera áhrifaríkt tæki í þessu. Ég efast ekki um það, en kostar nokkra fjármuni.

Ég held samt að áhrifaríkasta tækið í þessu sé að rétturinn sé auglýstur þar sem fólk sækir sér þjónustuna. Ég veit það og hef ótal dæmi um það og trúi því sem mér hefur verið tjáð um að heilbrigðisstarfsfólk er samviskusamt að minna fólk á rétt sinn í þessum efnum. Ég hef orðið vitni að því og tel að það sé áhrifaríkast. Hins vegar eigum við að hafa augun opin fyrir öllum leiðum um þetta efni og tillagan um að það sé áminning um þetta á þeim reikningum sem fólk fær er allrar athygli verð.