Menntun fótaaðgerðafræðinga

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:25:00 (6927)

2004-04-27 18:25:00# 130. lþ. 104.18 fundur 808. mál: #A menntun fótaaðgerðafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um menntun fótaaðgerðafræðinga. Í fyrsta lagi beinir þingmaðurinn þeirri fyrirspurn til mín hvort fyrirhugað sé að koma á menntun í fótaaðgerðafræði á Íslandi og ef svo sé, hvenær, hvernig undirbúningi sé háttað, hvort til sé námskrá fyrir slíkt nám, hvert sé innihald hennar og hún spyr einnig um það hvar í skólakerfinu sé fyrirhugað að slíkt nám eigi heima.

Því er til að svara að reglugerð um menntun, réttindi og skyldur fótaaðgerðafræðinga var sett árið 1990. Margir þeirra sem hlotið hafa starfsleyfi heilbr.- og trmrh. hafa stundað nám í fótaaðgerðafræðum erlendis en aðrir fengu leyfi við gildistöku reglugerðarinnar samkvæmt bráðabirgðaákvæði hennar. Voru það einstaklingar sem höfðu starfað sem fótaaðgerðafræðingar um tíma án þess að hafa formlegt nám í fótaaðgerðafræði að baki.

Nú munu um 130 einstaklingar hafa starfsleyfi sem fótaaðgerðafræðingar hér á landi. Allt frá því að reglugerð um fótaaðgerðafræðinga var sett hefur verið umræða um að koma á menntun í fótaaðgerðafræði hér á landi. Árið 2000 sendi Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga tillögu til menntmrn. um nám í fótaaðgerðafræði. Starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina sem menntmrn. skipaði á grundvelli 28. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, fjallaði um þær tillögur og sendi menntmrh. nýjar tillögur síðla árs 2000 þar sem lagt var til að nám í fótaaðgerðafræði yrði þriggja ára nám á framhaldsskólastigi. Varðandi innihald þeirrar námskrár vísast til menntmrn. en menntmrn. hefur ekki leitað eftir umsögn landlæknis eða heilbrrn. um fyrrgreinda tillögu að námskrá fyrir nám í fótaaðgerðafræði.

Nú hefur starfsgreinaráð heilbrigðis- og félagsgreina óskað eftir samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að lýsa starfsumhverfi og störfum á heilbrigðissviði, greina þörf fyrir þekkingu, hæfni og stöðu starfsnáms í heilbrigðisgreinum þar á meðal fótaaðgerðafræði. Gert er ráð fyrir að niðurstaða þeirrar athugunar liggi fyrir haustið 2004. Heilbr.- og trmrn. telur eðlilegt að beðið sé eftir niðurstöðum greiningarinnar áður en næsta skref er tekið varðandi nám í fótaaðgerðafræði hér á landi.

Hvað varðar þá spurningu hvar í skólakerfinu slíkt nám eigi heima er því til að svara að slík ákvörðun er á forræði menntmrn. Það fer jafnframt eftir því hvernig endanleg námskrá verður. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það að svo komnu máli og ég tel eðlilegt að það bíði efni þeirrar greiningar starfsgreinaráðs sem nefnd var áður.