Menntun fótaaðgerðafræðinga

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:27:55 (6928)

2004-04-27 18:27:55# 130. lþ. 104.18 fundur 808. mál: #A menntun fótaaðgerðafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör þó ég verði að viðurkenna að þau skýra ekki mikið fyrir mér hver hugsanleg niðurstaða málsins kann að vera, eins og gefur að skilja þar sem hæstv. ráðherra sagði að beðið yrði til hausts með að taka ákvörðun. Ráðherra minntist bæði á framhaldsskóla og háskóla og það gefur mér til kynna að hugsanlega sé verið að togast eitthvað á um í hvoru skólastiginu námið eigi heima. Mig langar líka til að fá að vita hvort ekki hafi komið til tals að námið yrði á forræði einkaskóla. Snyrtifræði er kennd í einkaskólum hér, svo dæmi sé nefnt, og ég veit að erlendis er námið víða kennt í einkaskólum og fróðlegt að heyra álit ráðherrans á því.

Ég vil að lokum láta í ljós þá skoðun mína að mikilvægt sé að skera úr um málið þannig að hægt sé að koma menntuninni á hvar svo sem hún verður endanlega.