Tannheilsa barna og lífeyrisþega

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:40:49 (6935)

2004-04-27 18:40:49# 130. lþ. 104.19 fundur 826. mál: #A tannheilsa barna og lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á þessu máli sem varðar tannheilsu barna og síðan lífeyrisþega. En endurgreiðslan sem sjúklingar fá sem leita til tannlækna, endurgreiðslan á kostnaði þeirra miðast við viðmiðunargjaldskrá og munurinn á tannlæknum og öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði er auðvitað sá að þeir eru með frjálsa verðlagningu.

Það hafa margir lagt til að gengið verði frá samningum við tannlækna á sömu nótum og samningar eru gerðir við aðra sérfræðilækna þannig að það verði sama gjaldskrá. Raunin er sú að sumir sem leita til tannlæknis fá full 75% endurgreidd af kostnaði sínum. Aðrir fá kannski bara 7%. Það fer allt eftir því hver gjaldskrá tannlæknisins er. Þessi frjálsa verðlagning átti náttúrlega að leiða til ákveðinnar kostnaðarvitundar og skila sér í lægra verði en hefur ekki gert það enn þá.