Tannheilsa barna og lífeyrisþega

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:44:31 (6937)

2004-04-27 18:44:31# 130. lþ. 104.19 fundur 826. mál: #A tannheilsa barna og lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tek undir það sem hv. 6. þm. Reykv. s. sagði í umræðunni, að mér finnst nauðsynlegt að ná samningum við tannlækna. Við höfum unnið mikið í því máli í ráðuneytinu. Við vorum búin að ná samningi sem meiri hluti tannlækna tók ákvörðun um að segja upp mjög fljótt. Við höfum ekki gefið upp þá von að ná samningum við tannlækna, en gjaldskrá þeirra er frjáls eins og kom réttilega fram í umræðunni.

Ég ítreka að við viljum byggja aðgerðir á þekkingu og rannsóknum í þessum efnum því að við höfum ekki ótakmarkaða fjármuni til að sinna þessari grein frekar en öðrum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Því er nauðsynlegt ef verja á til þessa viðbótarfjármagni að það nýtist sem best og nýtist þeim sem þurfa mest á því að halda. Að því viljum við stefna. Við förum þess vegna í þá rannsókn sem hér um ræðir af fullum krafti.