Framtíðaruppbygging Landspítalans

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:53:24 (6940)

2004-04-27 18:53:24# 130. lþ. 104.20 fundur 939. mál: #A framtíðaruppbygging Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Faglegt og fjárhagslegt hagræði sem felst í sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu verður ekki að fullu náð fyrr en búið er að byggja yfir Landspítala -- háskólasjúkrahús á einum og sama staðnum. Á þetta höfum við í Samf. lagt ríka áherslu.

Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. hefur fullan skilning á því og bersýnilega eru í gangi aðgerðir sem gætu leitt til þess að þessu yrði hrint í framkvæmd á allra næstu árum.

Ég vil í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Jónínu Bjartmarz og svari ráðherrans rifja það upp að nokkrir þingmenn Samf. hafa einmitt lagt fram þáltill. sem felur í sér að í þetta verði ráðist og þar er jafnframt bent á þann möguleika að ef stjórnvöld á annað borð ætla sér að selja ríkisfyrirtæki eins og Landssímann væri sanngjarnt að andvirðinu yrði veitt til þessa mikilvæga málstaðar.