Framtíðaruppbygging Landspítalans

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:54:37 (6941)

2004-04-27 18:54:37# 130. lþ. 104.20 fundur 939. mál: #A framtíðaruppbygging Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JBjart
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz):

Frú forseti. Það er vissulega skemmtileg tilviljun að á sama degi og ráðherrann svarar þessari fyrirspurn skuli þessi undirritun eiga sér stað. (Gripið fram í: Fullkomin tilviljun.) Ég vil þess vegna í annað skipti úr þessum ræðustóli fá að óska ráðherranum og okkur öllum sérstaklega til hamingju með þau tímamót sem náðst hafa með því samkomulagi sem verið er að undirrita.

Mér finnst alveg ljóst af ræðu hæstv. ráðherra að okkur miðar fram á veginn. Það kom fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að Samf. styður það með ráðum og dáð að í þetta sé farið og ég vil að taka undir þau orð hans að grunnurinn að því að í þetta er ráðist er sá að við náum ekki að fullu faglegum og fjárhagslegum markmiðum sameiningarinnar fyrr en sjúkrahúsið er komið undir eitt þak. Það skeður vissulega ekki á einni nóttu en það er ljóst af svari hæstv. ráðherra að unnið er mjög ákveðið og markvisst að því að ná þessu markmiði, en ég þori varla að spyrja ráðherrann að því hvort einhverjar áætlanir séu um það hvenær við ljúkum því. En það er líka ljóst að á þeim tíma meðan unnið er að undirbúningi að því að koma sjúkrahúsinu undir eitt þak þarf jafnframt að sinna ákveðnu viðhaldi og öðrum verkefnum, af því að starfsemi sjúkrahússins getur undir engum kringumstæðum stoppað.

Frú forseti. Ég vil sérstaklega þakka ráðherranum fyrir svarið og endurtaka hamingjuóskir mínar með að þeim áfanga sé þó náð í þessu ferli.