Framtíðaruppbygging Landspítalans

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:56:24 (6942)

2004-04-27 18:56:24# 130. lþ. 104.20 fundur 939. mál: #A framtíðaruppbygging Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um málið og ég vil líka þakka Samf. sérstaklega fyrir áhuga hennar á því. Það er mikilvægt að um það ríki sátt því að hér er um stórverkefni að ræða.

Í tillögum nefndarinnar sem skilað hefur verið til mín með þeirri áfangaskýrslu sem hér liggur fyrir, er m.a. lagt til að fram fari hönnunarsamkeppni um skipulag Landspítalalóðar og grunngerð nýbygginga og á grundvelli niðurstaðna úr henni verði unnið að deiliskipulagi lóðarinnar í samráði við Reykjavíkurborg og því lokið innan tveggja ára. Lagt er til að fengnir verði ráðgjafar til að meta sem best hvernig hægt er að ná sem mestu hagræði í starfsemi sjúkrahússins með þeirri endurskipulagningu sem nýbygging gefur kost á, en það er alveg rétt að sameining verður ekki að veruleika að fullu fyrr en starfsemin er komin á einn stað.

Síðan er spurningin um hvernig fjármagna á svo stórt og mikið verkefni sem þetta er upp á tugi milljarða króna. Það er ljóst að ýmis vandkvæði eru á því að fjármagna það með hefðbundnum hætti. Ég hef þess vegna viljað láta skoða hvort einkaaðilar væru tilbúnir að taka þátt í verkinu. Samf. er aftur á móti þeirrar skoðunar að nota eigi andvirði ríkiseigna. Það er hugmynd sem auðvitað getur komið inn í umræðuna en það er ljóst að þetta þarf að athuga sérstaklega.

En nú er mikilvægum áfanga náð, það er annað skrefið í þessu stóra máli. Fyrst var að ákveða staðsetninguna, síðan er unnið áfram á þeim grunni og nú er komið að þriðja áfanga í málinu, en ég get samt ekki sagt hvenær því lýkur.