Svar við fyrirspurn um brottfall úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 13:34:52 (6944)

2004-04-28 13:34:52# 130. lþ. 105.91 fundur 510#B svar við fyrirspurn um brottfall úr framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að stikla aðeins betur á þessum atriðum sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom inn á áðan.

Hagstofa Íslands aflar upplýsinga um fjölda nemenda í framhaldsskólum og iðnnema á námssamningi um miðjan október ár hvert. Þær tölfræðiupplýsingar um brottfall sem Hagstofa Íslands vann fyrir menntmrn. vegna fyrirspurnarinnar frá Alþingi miðast við þann fjölda dagskólanemenda sem hvarf frá námi frá haustinu 2002 til haustsins 2003. Unnið var út frá kennitölu þannig að nemendur sem skipt höfðu um skóla töldust ekki brottfallsnemendur en nemendur sem brautskráðst höfðu á tímabilinu voru taldir frá. Hér var því aðeins verið að telja nemendur sem ekki komu fram í skóla eða sem iðnnemar á samningi haustið 2003. Engar viðmiðanir um einingafjölda liggja að baki brottfallstölum. Brottfall getur stafað af ýmsum ástæðum, svo sem námsleiða, lélegum námsárangri og atvinnutækifærum.

Eins og fram kemur hér að framan heldur einnig Hagstofa Íslands skrá yfir iðnnema á samningi og eiga þeir nemendur því ekki að koma fram sem brottfallsnemendur. Hins vegar mun í einhverjum tilvikum vera dæmi þess að umsýsluaðilar námssamninga geri Hagstofunni ekki nægjanlega vel grein fyrir fjölda iðnnema á samningi. Fullyrða má þó að í langflestum tilvikum séu iðnnemar á samningi á skrá hjá Hagstofu Íslands. Öðru máli gegnir hins vegar um nemendur sem starfsþjálfunarsamningar eru ekki gerðir við, svo sem í bílgreinum, sjúkraliðanámi, tannsmíði og starfsþjálfun erlendis, t.d. flugvirkjun. Hagstofan fær ekki reglulega upplýsingar um þessa nemendur og því geta þeir komið fram sem brottfallsnemendur.

Vegna hárra brottfallstalna frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu er rétt að eftirfarandi komi fram: Haustið 2002 voru 115 nemendur skráðir í skólann. Þar af voru 50 nemendur á almennri braut. Margir nemendur á almennri braut framhaldsskóla hafa ekki góðan undirbúning fyrir nám á framhaldsskólastigi. Því er það reynslan að þessir nemendur hverfa oft frá námi. Af þeim 37 nemendum Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu haustið 2002 sem ekki komu fram í skóla árið eftir voru 25 eldri en 20 ára.