Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:06:32 (6948)

2004-04-28 14:06:32# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ímynda mér að hæstv. menntmrh. sé svo önnum kafin við að lesa gamlar ræður síns nýja leiðtoga, þ.e. Ólafs Ragnars Grímssonar, að hún hafi ekki haft tíma til þess að kynna sér önnur gögn málsins. Hæstv. menntmrh. spyr: Á ekki að gera baun í bala varðandi þróun á fjölmiðlamarkaði? Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hefur hún ekki kynnt sér þingmál sem Samf. hefur lagt fram? Við teljum að hægt væri að ráða bót á verulegum og hugsanlega stærstum hluta þeirra vandamála sem hæstv. ráðherra hefur lýst með því að setja reglur sem tryggi ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðla. Þar með er hægt að koma í veg fyrir að ófyrirleitnir eigendur þeirra geti misnotað þá. Þetta er tekið upp í skýrslu hæstv. menntmrh. en hún var ekki ærlegri en svo í umfjöllun sinni áðan að hún lét þess ekki getið. Þetta er ekki í frv. ríkisstjórnarinnar.

Við sögðum líka í þingmáli okkar að nauðsynlegt væri að setja lög sem tryggðu gagnsæi varðandi eignarhald þannig að almenningur vissi hverjir ættu fjölmiðlana. Þetta kemur líka fram í skýrslu hæstv. ráðherra og er ein af lykilábendingunum. Þetta er ekki að finna í frumvarpinu.

Frú forseti. Við höfum verið leita að því ódæði sem starfsmenn þessara miðla hafa framið sem gerir það að verkum að ríkisstjórninni finnst réttlætanlegt að ráðast með þessum hætti að fyrirtækjunum. Ódæðið er fundið núna. Hæstv. forsrh. segir í viðtölum 26. apríl að þessir fjölmiðlar og þessir blaðamenn búi ekki við neitt frelsi. Með leyfi forseta þá vitna ég í það sem hann segir:

,,Það er algjörlega og eingöngu gengið erinda eigendanna.``

Með öðrum orðum er fundið að starfi fjölmiðlafólksins og það er þess vegna sem ráðist er á það með þessum hætti. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Er hún sammála hinum leiðtoga lífs síns, hæstv. forsrh., um þetta mál?