Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:12:42 (6951)

2004-04-28 14:12:42# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. ætti að beina spurningum sínum til Samf. sem sagði fyrir síðustu kosningar og (Gripið fram í.) kosningarnar þar áður að hún ætlaði að birta bókhald sitt en hefur ekki gert það enn. (Gripið fram í: Svaraðu.) Orð eru eitt og athafnir annað. (Gripið fram í.)

Varðandi, virðulegi forseti, þessa skýrslu þá er það rétt að hún er vettvangur og grundvöllur til að tryggja lýðræðislega umræðu áfram. Það er nákvæmlega markmið okkar með þessari löggjöf, með þessu frv. sem við komum til með að ræða um í næstu viku.

Við verðum að átta okkur á því að samþjöppun á markaði í viðskiptalífinu er orðin mikil hér á landi. Við höfum leyft það og við höfum sagt: Gott og vel, við leyfum hér fyrirtækjum að verða markaðsráðandi. Það er ekkert við því að segja. En um leið þá krefjumst við þess að fjölmiðlarnir geti sýnt fyrirtækjunum sem eru markaðsráðandi aðhald, að almenningur, þegnarnir í samfélaginu geti treyst því að fjölmiðlar, sem eru ekki bara aðhald á okkur sem hér erum inni heldur líka aðhald á markaðsráðandi fyrirtæki í samfélaginu, fari fram með sannar og réttar upplýsingar og ekki með hagsmunatengsl í huga. Það býr að baki því þegar ég segi: Við erum að tala um lýðræðið í landinu. Það er grundvöllur að lýðræðislegri umræðu um það sem kemur fram í skýrslunni.

Við megum ekki gleyma því að fjölmiðlar eru fjórða valdið. Við verðum að styrkja þá og efla þannig að þeir geti staðið undir því að vera fjórða valdið.