Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:17:40 (6955)

2004-04-28 14:17:40# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Frú forseti. Það vekur óneitanlega athygli í þessari umræðu, eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. menntmrh., hvaða tilvitnanir í stjórnmálaleiðtoga hún kýs að nefna í ræðu sinni. Við höfum séð það í umfjöllun síðustu daga í fjölmiðlum að ítrekað hefur verið vitnað í ummæli, sem eru sum hver nýrri en þau sem hér er vitnað til, leiðtoga sem ég hefði hingað til haldið að væru leiðtogar hæstv. menntmrh., manna eins og hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar og margra annarra sem hafa tjáð sig þveröfugt við það sem þeir gera nú. Hver hafa svör þeirra verið, virðulegi forseti? Þessi ummæli eru börn síns tíma, sagði hæstv. dómsmrh., Björn Bjarnason.

Ég ætla ekki að láta þessa umræðu snúast um tíu ára gömul ummæli, ummæli sem viðhöfð voru fyrir áratug.

Skýrsla sú sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fram er að mörgu leyti góð og í henni margar góðar hugmyndir sem mundu bæta verulega starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi. En ríkisstjórnin hefur fallið í þá undarlegu gryfju að semja upp úr henni ótrúlega illa unnið frumvarp sem einhver ósköp liggur á að afgreiða frá Alþingi. Úr skýrslunni er soðið frumvarp sem stenst ekki þær kröfur sem við eigum að gera til lagasetningar í nútímaþjóðfélagi. Það beinist nánast alfarið gegn einu fyrirtæki. Tilefni þess er óljóst og virðist helst að finna í opinberri andúð forsrh. á tilteknum aðilum í íslensku viðskiptalífi. Það er illa undirbúið og án nokkurs samráðs við þá sem starfa hjá fjölmiðlunum eða reka þá. Það felur í sér afturvirkni og brýtur líklega í bága við atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Það felur í sér alvarlegt inngrip í atvinnustarfsemi þrátt fyrir að engin tilefni hafi komið upp svo alvarleg að kalli á að gripið sé til slíkra neyðarúrræða á þessu stigi. Frumvarpinu er ætlað að tryggja meiri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi en það mun þrengja svo að möguleikum fjölmiðlafyrirtækja til fjármögnunar að afleiðingarnar gætu orðið alvarlegar fyrir slíka starfsemi. Þau markmið að auka fjölbreytni munu snúast upp í andhverfu sína verði þetta frv. að lögum. Grætilegast er að á því besta og raunhæfasta í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar hefur ríkisstjórnin engan áhuga.

Með frumvarpinu velur ríkisstjórnin beiskasta molann af hlaðborði fjölmiðlanefndarinnar. Hann stóð reyndar eitthvað aðeins í framsóknarmönnum eins og epli stjúpunnar vondu í Mjallhvíti forðum. En þrátt fyrir einhverjar lagfæringar er afraksturinn til háðungar fyrir samstarfsflokk Davíðs Oddssonar, sem sýnir enn einu sinni að hann er tilbúinn að sporðrenna öllu sem að honum er rétt úr armi foringjans.

Af því að hæstv. ráðherra spyr hvort hún hafi ekki átt að leggja fram þær tillögur sem nefndin leggur til þá vil ég vekja á því athygli að fyrsta tillaga nefndarinnar, helsta tillaga nefndarinnar, er að Ríkisútvarpið, almenningsútvarpið verði treyst. Lagt er til að hér verði traust almenningsútvarp. Það vekur óneitanlega athygli að inn á það er ekki komið í frv. ríkisstjórnarinnar. Um það eru engar beinar tillögur.

Það vekur líka athygli að nefndin sjálf skuli ekki hafa samið frumvarpið eins og henni var falið. Af hverju samdi nefndin ekki frumvarpið, hæstv. menntmrh., eins og henni var falið? Af hverju er tveimur nefndarmönnum falið að gera það? Getur það hafa verið vegna þess að hugsanlega hafi verið ágreiningur um þær leiðir sem nefndin vildi fara? Hún leggur fram hlaðborð af hugmyndum. Ríkisstjórnin velur síðan af því hlaðborði.

Sjálfstæðismenn ganga út frá því, að því er virðist, af umræðunni síðustu daga að fjölmiðlafólk gangi fyrst og síðast erinda eigenda sinna. Hvernig velja þeir fólk til að stjórna þeim fjölmiðlum sem þeim hefur verið treyst fyrir? Þar situr sjálfstæðismaður í sæti útvarpsstjóra. Þar situr sjálfstæðismaður í sæti formanns útvarpsráðs. Þar situr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í sæti formanns útvarpsréttarnefndar. Ekki lítur þetta vel út eða hvar eru áformin um fjölbreytni og víðsýni þegar sjálfstæðismenn skipa í slíkar áhrifastöður?

Það er reyndar gott til þess að vita að hæstv. menntmrh. ætlar að sjá til þess að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. víki úr forsæti í útvarpsréttarnefnd enda verður nefndinni veitt gífurlegt aukið vald með frv. Það ber að þakka fyrir þær skímur sem sjást í meðferð ríkisstjórnarinnar á frv. Það vekur hins vegar athygli að ekki hafi verið lögð í það vinna í flýtifrumvarpinu að endurhugsa skipan útvarpsréttarnefndar eins og lagt er til í skýrslunni, þrátt fyrir aukið vald hennar. Ekki er um málskotsrétt að ræða vegna ákvarðana nefndarinnar sem verður þó að teljast eðlilegt og ekki er heldur gert ráð fyrir sérstökum hæfisskilyrðum nefndarmanna. Það er eitthvað sem skoða má í framtíðinni, segir ríkisstjórnin. Ekkert liggur á.

Ég hlýt að spyrja: Hvers vegna mátti ekki bíða fram á haustið með að leggja fram tillögur á grundvelli þeirrar ágætu skýrslu sem nú liggur fyrir og leggja síðan fram alvörufrumvarp um starfssvið og umhverfi fjölmiðla þar sem m.a. væri komið inn á málefni útvarpsréttarnefndar og fleiri óleyst og vandræðaleg mál sem út af standa? Nei, það mátti ekki og það hvarflar að manni að það sé vegna þess að hæstv. forsrh. hafi viljað tryggja að Baugslögin færu í gegn í hans valdatíð sem forsætisráðherra, annað mætti bíða.

Þjóðin mun því miður sjá það á næstu vikum að hvorki samstarfsflokkurinn né hinir meintu frjálslyndu sjálfstæðismenn á þingi munu standa í vegi hans. Algjör samstaða er um málið í ríkisstjórn, segja formenn stjórnarflokkanna. Það vekur óneitanlega athygli í ljósi þess hve skýr afstaða sjálfstæðismanna hefur verið í viðlíka málum í gegnum tíðina. Það þarf ekki að fara tíu ár aftur í tímann, eins og fjölmiðlar hafa gert undanfarna daga og hæstv. menntmrh. gerði áðan. Vissulega getur margt breyst á tíu ára tímabili í pólitík. Það þarf ekki annað en að skoða tæplega ársgamlar umræður, frá því í nóvember 2003, þar sem fjallað var um Ríkisútvarpið. Vitna mætti í ummæli nokkurra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, t.d. hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem sagði þá, með leyfi forseta:

,,En ég ítreka það að einkaaðilum er alveg treystandi fyrir rekstri fréttastöðva og við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því, verði breyting á eignarhaldinu, að sá trúverðugleiki verði fyrir borð borinn.``

Viðlíka ummæli má hafa eftir hv. þm. Pétri Blöndal og hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem hafa engar áhyggjur af því að einkaaðilar reki fjölmiðlana í ríkari mæli en nú er.

Hvar eru þeir nú, virðulegi forseti? Ætla þeir að ganga fram hnarreistir í baráttunni fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki eiga eina krónu í ljósvakafyrirtækjum? Ætla þeir að styðja það að þeir sem eiga ljósvakafyrirtæki megi ekki eiga dagblað líka o.s.frv.? Enginn reynir að slá á ósköpin þannig að þau standist stjórnarskrá og líti skaplega út.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég átti ekki von á svona vondu frumvarpi þótt ég hafi verið búin að undirbúa mig undir ýmislegt.

Það ber að virða það að hæstv. menntmrh. hefur kynnt sér tillögu Samf. í þessum efnum. Hún vísar til þess að við höfum ekki valið að nota nýjustu tilmæli Evrópuráðsins. Ég vil geta þess í því sambandi að Evrópuráðið hefur sent frá sér fjölda tilmæla sem snerta þennan markað. Ein þeirra eru um fjölbreytnina sem hún vísar til, frá 1999. Þar eru líka þessi tilmæli frá 1994 sem við kjósum að vinna okkar tillögur upp úr. Þau standa fyllilega fyrir sínu og það hefur ekkert breyst. Hæstv. menntmrh. hlýtur að vita að þau tilmæli hafa nákvæmlega ekkert breyst.

Ég bendi á að lönd Evrópuráðsins hafa valið mjög ólíkar leiðir við að setja svona reglur, m.a. um eignarhald, einmitt vegna þess að markaðirnir eru svo ólíkir. Það er ekki hægt að apa eitthvað beint upp eftir öðrum löndum þar aðstæður eru öðruvísi og í öllum tilvikum miklu stærri markaðir. Þetta hélt ég að hæstv. menntmrh. vissi.

Samf. er vissulega þeirrar skoðunar að fjölmiðlar séu ekki eins og hver önnur atvinnugrein. Um þá verða að gilda strangari reglur en um aðra starfsemi enda höfum við í vetur lagt fram tvö þingmál sem ganga út á að setja sérreglur um þennan markað, annað um vernd heimildarmanna og hitt um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði. Við teljum að það sé mjög mikilvægt að standa vörð um fjölmiðlastarfsemi. Hæstv. menntmrh. vitnaði t.d. í ummæli nokkurra þingmanna okkar og sú afstaða hefur ekkert breyst.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að það er ekkert í umfjöllun fjölmiðla sem bendir til þess að um slíka fábreytni sé að ræða í umfjölluninni, að einhver hætta sé á ferðum. Þegar við tölum um fjölbreytni í fjölmiðlun þá erum við fyrst og síðast að tala um fjölbreytilega umfjöllun en ekki eignarhald, eins og hæstv. menntmrh. reynir að telja mönnum trú um.

Ýmislegt hefur gerst á síðari árum og miklar breytingar orðið. Eignarhaldið er ekki eins skýrt gagnvart almenningi og það þarf að gera skýrara með skýrum reglum. Við höfum m.a. lagt það til. En sjálfstæðismenn eru svo illa staddir á síðustu og verstu tímum að þeir eiga aðeins eitt ráð við öllum vandamálum sem upp koma: Setjum lög. Bönnum það. Rétt eins og forsrh. hefur lagt til í umræðunni um fjármál stjórnmálaflokka. Við skulum frekar banna að fyrirtæki megi styrkja stjórnmálaflokka en gera bókhaldið opinskátt og gagnsætt. Það má ekki.

Samfylkingin getur tekið undir það sem nefnd menntmrh. komst að árið 1996. Í henni voru margar stórskytturnar úr liði sjálfstæðis- og framsóknarmanna: Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Ásdís Halla Bragadóttir, Páll Magnússon og Tómas Ingi Olrich. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki skal kveða sérstaklega á um takmörkun eignarhalds í ljósvakamiðlum í útvarpslögum.`` Síðar segir: ,,Þessi skoðun er sett fram í ljósi þeirrar staðreyndar að lög af þessu tagi hafi í nágrannalöndunum oftar en ekki orsakað glundroða. Það hefur reynst fremur auðvelt að fara í kringum slík lög. Eftirlit er kostnaðarsamt og þó því sé ætlað að vernda athafnafrelsi og hlutleysi, virðast þau stundum hafa skert athafnafrelsið á ósanngjarnan hátt og jafnvel beinst gegn einstökum aðilum.``

Hvað er að gerast í umræðunni í samfélaginu í dag? Hvað er að gerast? Í samhengi við þau ummæli sem hæstv. forsrh. hefur haft um þau fyrirtæki sem þessi lög beinast gegn þá er frv. mjög alvarlegt mál. Slík lagasetning er mjög alvarleg og virðist beinast gegn þessum eina aðila.

Að mínu mati er fullkomið ábyrgðarleysi að leggja fram tillögur um bann við fjárfestingu fyrirtækja með markaðsráðandi stöðu í ljósvakamiðlum. Þessi tillaga er sett fram án þess að nokkur tilraun sé gerð til að meta hvaða áhrif þetta kann að hafa á möguleika fyrirtækjanna til að fjármagna starfsemi sína og fjárfestingar. Það má skoða þann litla markað sem er hér á landi og velta fyrir sér hvaða fyrirtæki eru að öllum líkindum markaðsráðandi og þar með bannað að fjárfesta í ljósvakamiðlum: Eimskip á flutningamarkaði; Húsamiðjan og BYKO í byggingavörum; Flugleiðir; Nói-Síríus í sælgæti; Áburðarverksmiðjan; Pharmaco í lyfjum; deCODE í líftækni, svo dæmi séu tekin; Vífilfell, Myllan, Mjólkursamsalan, Osta- og smjörsalan, Landsvirkjun og guð má vita hvað. Öllum þessum aðilum er bannað að fjárfesta í ljósvakamiðlum samkvæmt þessum lögum.

Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að í skýrslu fjölmiðlanefndar er dregin upp nokkuð góð mynd af stöðunni á þessum markaði. Þrátt fyrir að þeir telji þurfa að setja reglur um eignarhaldið, því er ég ósammála, segja þeir að að öðru leyti sé staðan nokkuð góð. Fjölbreytnin er meiri en hún hefur oft áður verið. Á hljóðvarpsmarkaði hefur RÚV 52% markaðarins og einkastöðvar 48%. Á sjónvarpsmarkaði rekur RÚV eina stöð. Sjónvarpsáhorf skiptist þannig að RÚV er með 43%, Skjár 1 með 21%, sjónvarpsstöðvar í eigu Íslenska útvarpsfélagsins með 37% samtals. Ef við skoðum blöðin lesa 69% landsmanna Fréttablaðið daglega, 56% Morgunblaðið og 17% DV.

[14:30]

Ríkisútvarpið stendur auk þess styrkum fótum á markaðnum en í því felst óneitanlega ákveðin brjóstvörn fyrir hugsanlegum óhóflegum yfirráðum einkaaðila þar. Ég verð að segja að mér þykir þetta nokkuð ásættanlegt ástand á þeim örsmáa markaði sem er hér á landi og tel mjög varasamt að hefta þessa starfsemi meira en brýnasta nauðsyn krefur hvað aðgang að fjármagni varðar og vitna ég þar til sögu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi sem segir okkur hversu viðkvæmur markaðurinn er.

Ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh.: Hvar eru dæmin um fábreytni í umfjöllun eða um að þeir aðilar sem eiga fyrirtækin hafi misnotað þau sér í þágu? Hæstv. forsrh. hefur fullyrt það fullum fetum að dæmin séu til staðar og að þeir sem starfi á þessum fjölmiðlum gangi bara erinda eigenda sinna. Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að gripið er til þessarar lagasetningar því ekki eru menn að setja lög bara upp úr þurru þannig að ég spyr: Hvar eru dæmin? Ég vil líka segja, virðulegi forseti, af því að það er vísað sí og æ til tilmæla Evrópuráðsins frá 1994, að hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki lagt vinnu í að skoða þau frekar en fjölmörg önnur tilmæli frá Evrópuráðinu. Það er valið hvaða tilmæli eru skoðuð og það er líka eðlilegt að hvert og eitt ríki velji sér þær reglur sem henta markaðnum. Tilmæli hafa aldrei komið beinlínis um það hvernig þetta skuli vera, enda eru þessar reglur gríðarlega breytilegar í hverju landi fyrir sig. Það er engin tilviljun. Íslenski markaðurinn er með rétt rúmlega 280 þúsund manns. Hann hlýtur að vera sérstaklega viðkvæmur auk þess sem hann er með óvenjulega sterkt Ríkisútvarp þannig að einkamarkaðurinn er lítill sem því nemur. Á þennan markað ætlar hæstv. ríkisstjórn að setja þær hömlur að það megi ekki ná í peninga hér og það megi ekki ná í peninga þar. Látum vera með dreifðu eignaraðildina sem fjölmörg önnur lönd hafa farið.

Ég vil í lokin, hæstv. forseti, spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaðan hefur hún það fordæmi að banna markaðsráðandi fyrirtækjum með öllu að eiga nokkurn hlut í ljósvakamiðli? Frá hvaða landi er það fordæmi tekið?