Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:38:21 (6959)

2004-04-28 14:38:21# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. menntmrh. við spurningu minni áðan er í ósamræmi við það sem greinir í skýrslunni sem við fjöllum um en þar segir um dönsku regluna á bls. 75, með leyfi forseta:

,,Fyrirtæki (félög) sem eru í rekstri óskyldum fjölmiðlarekstri mega ekki eiga ráðandi hlut í félagi sem hefur leyfi til að reka útvarp...``

Virðulegi forseti. Við erum ekki að tala um ráðandi hlut. Við erum að tala um að þeim fyrirtækjum sem eru í markaðsráðandi stöðu sem eru fjölmörg, eins og ég geri ráð fyrir að hæstv. menntmrh. viti, á þessum litla íslenska markaði okkar mega ekki eiga neitt í ljósvakamiðlum. Það er ekki það sem reglurnar í Danmörku benda til eftir því sem skýrsla hinnar ágætu nefndar gerir ráð fyrir. Það kann að vera að það sé rangt hjá nefndinni. Þá held ég að hæstv. menntmrh. verði að leiðrétta það. Er hún að leita til fordæma til Danmerkur með þetta eða eru þau hvergi til í Evrópu eins og ég þykist vita eða hvergi í lýðfrjálsu ríki?