Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:46:10 (6964)

2004-04-28 14:46:10# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri engar athugasemdir við fundarstjórnina. Hins vegar hef ég átt í erfiðleikum með að átta mig á afstöðu Samf. og kannski sérstaklega formannsins. Ég skal hins vegar halda mig við ummæli sem fallið hafa í þessari viku og kannski upplýsingar sem komið hafa fram á þessu þingi og forðast að fara langt aftur í tímann því það er greinilega viðkvæmt.

Formaður Samf. var í útvarpsviðtali á mánudaginn sem ég hlustaði á. Ég fékk síðan útskrift af því af því að ég áttaði mig ekki á afstöðunni frekar en fréttamaðurinn í viðtalinu og ég átta mig ekki heldur á afstöðunni þegar ég hef lesið útskrift af viðtalinu en ég bíð spenntur eftir ræðu hans eins og ég sagði áðan.

Ég beið líka spenntur eftir ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, talsmanns Samf. í málinu, þar sem hún er 1. flm. að tillögu um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði í íslenskum fjölmiðlum. Þar er hins vegar líka fjallað um takmarkanir á fjölmiðlaeign og segir í greinargerð tillögunnar, bls. 3 neðarlega, með leyfi forseta:

,,Rökin fyrir frekari takmörkunum í lögum um íslenska fjölmiðla verða því að spretta af íslenskum aðstæðum. Slík rök gætu meðal annars verið að þróun síðustu ára hafi leitt til óeðlilegrar fábreytni ...`` --- Og síðan aftur, með leyfi forseta: ,,Væri um slíkt að ræða hefði fjölmiðla og stjórnvöld sannarlega borið af leið ...``

Það segir hins vegar í skýrslunni að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hér séu ýmis einkenni samþjöppunar sem talin eru óæskileg út frá markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlum og því hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við með lagasetningu. Þegar nefndarálitið er haft í huga, hæstv. forseti, og niðurstaða skýrslunnar og það er lesið saman, leiðir þá ekki af þessari skoðun hv. þm. og meðflutningsmannanna að það sé eðlilegt að nú sé sett löggjöf um þetta efni?