Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:48:28 (6965)

2004-04-28 14:48:28# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það leiðir ekki af því vegna þess að það sem nefndin er að tala um og það sem hæstv. ríkisstjórn byggir niðurstöðu sína á --- hún er alltaf að tala um fjölbreytni í eignarhaldi --- nefndin skautar reyndar mjög auðveldlega fram hjá því, finnst mér. Hún talar um fjölbreytni og þær reglur sem gildi hjá Evrópuráðinu um fjölbreytni í umfjöllun. Þetta snýst um tjáningarfrelsi, ekki satt? Um umfjöllunina sem slíka og að hún sé fjölbreytt og að öll sjónarmið fái að njóta sín. Við erum að tala um fjölbreytni í umfjölluninni sem slíkri. Það er það sem skiptir máli, virðulegi forseti. Ég sé ekki á hvaða hátt það gæti leitt til meiri fábreytni í umfjölluninni ef markaðsráðandi fyrirtæki eins og Nói-Síríus eða Áburðarverksmiðjan fengju að eiga einhverja þúsundkalla í ljósvakamiðlunum. Ég sé ekki að það hefði nokkur einustu áhrif, virðulegi forseti, á umfjöllun fjölmiðla á Íslandi, eða hvaða ástæða er til að hafa áhyggjur af því? Hvaðan sækir ríkisstjórnin þessa reglu sína? Því hefur hæstv. menntmrh. ekki enn þá svarað mér.