Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:52:23 (6968)

2004-04-28 14:52:23# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu sem hér er til umfjöllunar er skýr. Í fyrsta lagi að íslensk stjórnvöld hafa með aðild sinni að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum skuldbundið sig til að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlum. Sú skuldbinding byggir á túlkun Mannréttindadómstólsins í Strassborg á ákvæðum 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í öðru lagi að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og eignatengsl hér á landi virðast vera með þeim hætti að ástæða sé til að draga megi í efa að fjölbreytni í fjölmiðlum sé nægilega tryggð til lengri tíma litið. Þar er einkum vísað til pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni. Staðan á fjölmiðlamarkaði hefur ýmis þau einkenni sem talin eru óheppileg út frá þeim alþjóðlegu viðmiðunum um fjölbreytni sem nefndin styðst við og taldar hafa verið eiga við í öðrum löndum.

Í þriðja lagi er það skoðun nefndarinnar sem samdi þessa skýrslu að af viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla gegn frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við um samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu viðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.

Því verður ekki á móti mælt, hæstv. forseti, að hér er um að ræða málefnalegar forsendur fyrir lagasetningu og þetta er hið lögmæta markmið sem stjórnvöld stefna að með því frv. sem kynnt hefur verið og er í samræmi við þessa þjóðréttarlegu skuldbindingu sem sé að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.

Þessi umræða er ekki aðeins ofarlega á dagskrá í íslenskri þjóðmálaumræðu. Evrópuþingið hefur hvatt aðildarlönd sín og framkvæmdastjórnina til að standa vörð um fjölbreytni fjölmiðla og tryggja, hæstv. forseti, að fjölmiðlar í öllum aðildarríkjum séu frjálsir, sjálfstæðir og fjölbreyttir.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að bregðast við skýrslu nefndarinnar með því að leggja fram frv. sem uppfyllir þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem hvíla á íslenskum stjórnvöldum. Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að það frv. sem kynnt hefur verið og fjallað verður um á Alþingi á næstunni sé í anda þess markmiðs og gangi ekki lengra en óhjákvæmilegt er og lög leyfa í þá átt að skerða atvinnufrelsi og eignarréttindi þeirra aðila sem nú standa að rekstri fjölmiðlafyrirtækja. Hv. Alþingi mun vitaskuld veita þessu frv. vandaða umfjöllun og leggja sjálfstætt mat á þau álitaefni og bera endanlega ábyrgð á lagasetningunni. Þannig tryggir Alþingi að lögin stuðli að því markmiði sem að er stefnt og herði ekki svo að rekstrarumhverfi fyrirtækja á þessum markaði að niðurstaðan verði í ósamræmi við markmiðið.

Hér eiga margir mikilla hagsmuna að gæta, ekki aðeins eigendur heldur ekki síður sá fjöldi fólks sem hefur lifibrauð sitt af störfum hjá íslenskum fjölmiðlafyrirtækjum. Það er fullur vilji ríkisstjórnarinnar að raska ekki högum þessa fólks að óþörfu og ég minni á að það markmið sem að er stefnt með löggjöfinni er að styrkja faglegt sjálfstæði þess fólks í störfum sínum.

Hæstv. forseti. Í minnisblaði sem hæstv. menntmrh. lagði fyrir ríkisstjórn kemur m.a. fram að áfram verður unnið að því að kanna hvort hrinda beri í framkvæmd öðrum tillögum skýrsluhöfunda, þar á meðal ákvæðum sem einmitt lúta að því að styrkja faglegt sjálfstæði fjölmiðlanna gagnvart eigendum miðlanna.

Einnig hefur komið fram í umræðunni að full þörf sé á því að endurskoða fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég tel að á því sé fyllsta þörf, hæstv. forseti, og það málefni og raunar málefni Ríkisútvarpsins almennt eru til umfjöllunar í stjórnarflokkunum.

Ég segi þetta m.a. vegna þess að í umræðum um þetta mál hafa ýmsir orðið til þess að lýsa efasemdum um það að í raun sé samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum umtalsvert vandamál í íslensku samfélagi. Þeir hinir sömu telja væntanlega að umfjöllun fjölmiðla um það mál sem við erum að ræða hafi verið hlutlaus, fagleg og eðlileg og ekki til marks um áhrif hagsmuna eigenda á umfjöllun fjölmiðla sinna. Þeir aðilar telja væntanlega t.d. að fyrirsögn sú sem DV valdi að birta á forsíðu sinni nýlega og var þannig, með leyfi forseta: ,,Gremja Davíðs fest í lög``, hafi verið í anda hlutlausrar og málefnalegrar umræðu og faglegrar. Þeir um það.

Fleiri dæmi þessu lík mætti nefna. Eða er það svo, hæstv. forseti, að í þessu máli sjái menn engan mun á faglegri umfjöllun ríkisfjölmiðils annars vegar og hins vegar nánast ofstækisfullri andstöðu þeirra fjölmiðla þar sem eigendur telja að sér vegið. Fréttaumfjöllun undanfarinna daga er í raun sönnun þess, hafi slíkrar sönnunar verið þörf í huga einhvers, að eignarhald fjölmiðla getur haft og hefur á stundum úrslitaáhrif á það hvaða tökum fjölmiðlar taka umdeild mál. Þegar nægilegir hagsmunir eru í húfi er litlu skeytt um það hversu nákvæma og sanngjarna mynd þessir miðlar sýna almenningi af því máli sem er til umræðu.

Hér vil ég, hæstv. forseti, vekja athygli á því að í skýrslunni sem er tilefni þessarar umræðu er sérstaklega vakin athygli á því að hér á landi sé uppi sú staða, sem ekki er þekkt dæmi um í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við, að fyrirtæki sem hafa sterk ítök á mikilvægum sviðum íslensks atvinnulífs eru einnig ráðandi á fjölmiðlamarkaði.

Hér er í skýrslunni einkum vísað til sterkrar stöðu fyrirtækisins Baugur Group hf. á matvörumarkaði auk þess sem félagið hefur ítök á öðrum sviðum viðskiptalífs í landinu. Þá er enn fremur vísað til eignatengsla milli fyrirtækisins Baugur Group hf. og Norðurljósa hf. sem eins og við þekkjum er umfangsmikið á fjölmiðlamarkaði í heild og hefur yfir að ráða því dagblaði landsins sem mest er lesið, þ.e. Fréttablaðinu, auk þess sem það ræður DV. Þá ræður fyrirtækið yfir um 37% af áhorfi sjónvarps og tæplega 44% af hlustun á hljóðvarp. Ég skora, hæstv. forseti, á þá sem vefengja að hér sé tilefni til að setja lög í framhaldi af þessari skýrslu að færa fyrir því haldbær rök hvaða almannahagsmunum það þjónar að fyrirtæki sem er með markaðsráðandi stöðu hafi jafnframt ráðandi stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hvaða almannahagsmunir, hæstv. forseti, búa þar að baki?

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur kynnt og lagt fram á Alþingi í kjölfar þessarar skýrslu hefur að geyma almennar reglur sem eiga að hafa áhrif á uppbyggingu fjölmiðlamarkaðar í framtíðinni til þess að stuðla að þeirri fjölbreytni sem íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja á þessum markaði í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ætlun ríkisstjórnarinnar er að ganga ekki lengra í lagasetningu en nauðsynlegt er til að ná lögmætu markmiði. Vönduð meðferð málsins á Alþingi mun tryggja að þau lög sem sett verða taki nauðsynlegt tillit til eignarréttinda, atvinnufrelsis og annarra lagalegra og stjórnarskrárbundinna réttinda þeirra sem hlut eiga að máli.