Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:10:26 (6977)

2004-04-28 15:10:26# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það sýnir e.t.v. best hversu hörundsárir þingmenn stjórnarliðsins og fyrst og fremst hæstv. ráðherrar eru að hlusta á hæstv. félmrh. koma og kveinka sér undan því að dagblað sem gefið er út hér í borg skuli birta skarpa og íroníska ádeilu á hæstv. forsrh. Veit ekki hæstv. félmrh. að háð og íronía er aldagamalt vopn í rökræðum? Ég held að hæstv. ráðherra verði aðeins að þykkja sitt eigið skinn ef hann ætlar að verða langlífur í pólitíkinni, ef hann þolir ekki að fá á sig svona gusu.

Frú forseti. Smám saman finnst mér að það sé að koma fram hvað það er sem hefur vakið þetta mál og þetta frv. af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. félmrh. var eðlilega tíðrætt um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og greinilegt var að hann taldi að samþjöppunin birtist í því að fréttamenn höguðu vinnubrögðum sínum eftir áliti eigendanna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra betur út í þetta. Telur hann að eignarhald t.d. á Norðurljósum og þeim fjölmiðlum þar með sem til þeirrar samsteypu heyra komi sterklega fram í umfjöllun fréttamanna á DV, Fréttablaðinu og Stöð 2? Mér finnst mikilvægt að hæstv. ráðherra skýri ummæli sín sem hnigu töluvert í þá átt áðan vegna þess að ég held að það sé kjarni málsins.