Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:13:09 (6979)

2004-04-28 15:13:09# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að mér væri sæmst, eins og hæstv. félmrh., að hafa engar skoðanir á því með hvaða hætti fjölmiðlar kjósa að beita vinnu sinni og tökum þegar verið er að gagnrýna stjórnmálamenn eins og okkur báða. Ef þeir kjósa að gera það með háði og íroníu er það þeirra mál. Reyndar verð ég að gera þá játningu að sem ritstjóri þriggja dagblaða notaði ég það oft þegar ég var starfandi.

Mér finnst hins vegar mikilvægt að draga það fram að í ræðu sinni í dag sagði hæstv. félmrh. beinlínis að eignarhaldið kæmi fram í skoðunum starfsmanna blaðanna. Þegar ég spurði hann eftir þessu áðan dró hann í land. Þá var hann hættur að vera sammála hæstv. forsrh. en aftur orðinn sammála formanni Framsfl., sem var ekki sammála ummælum hæstv. forsrh. þegar hann var spurður um þau í gær. Má ég svo biðja hæstv. félmrh. að reyna að halda sig við eina skoðun þó að sá sveigjanleiki sem hann sýnir sé sannarlega nokkuð merkilegur.