Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:15:25 (6981)

2004-04-28 15:15:25# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Það er í sjálfu sér athyglisvert við þessa umræðu að Sjálfstfl. er bersýnilega að sveigja af þeirri braut sem hann hefur markað hingað til varðandi málefni fjölmiðla á Íslandi. Hingað til hefur flokkurinn ekki verið ákafur talsmaður hafta eða takmarkana, hvorki á fjölmiðlamarkaði né öðrum mörkuðum. Það er athyglisvert í sjálfu sér.

Hins vegar verð ég að lýsa því yfir að mér þykir skýrslan sem hér er til umfjöllunar nokkuð vel unnin. Í henni er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar og ég er sannfærð um að þessi skýrsla á eftir að nýtast vel í umræðunni um stöðu fjölmiðla í samfélagi okkar. Mér finnst hæstv. menntmrh. hafa fylgt henni vel úr hlaði og málefnalega. Ósk mín er sú að þessi skýrsla fái að vera sá grundvöllur umræðunnar sem henni er ætlað að vera.

Ég vil geta þess að tilurð skýrslunnar og nefndarinnar sem hana samdi er nokkuð athyglisverð. Svo bar við, þegar nokkrir þingmenn höfðu safnast saman um þáltill. fyrir sex mánuðum, sem gerði ráð fyrir að fram færi könnun á starfsumgjörð fjölmiðla, að allt í einu var rokið upp til handa og fóta af hálfu ríkisstjórnarinnar og skipuð nefnd um nákvæmlega það sem þáltill. hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, Drífu Hjartardóttur, Guðjóns Arnars Kristjánssonar, Hjálmars Árnasonar og Steingríms J. Sigfússonar gerði ráð fyrir.

Tillagan, sem afgreidd var til nefndar og liggur núna í þingnefnd, var mér afar mikið að skapi. Ég hefði talið eðlilegt að við fengjum ráðrúm til að senda þá þáltill. sem eðlilegasta leið í gegnum þingið. Hins vegar þótti mér ríkisstjórnin grípa fram fyrir hendurnar á þinginu, eins og ríkisstjórnin gjarnan gerir, með því að heimila ekki eðlilega umfjöllun um þá tillögu. Ég vek sérstaklega athygli á einu atriði í tillögunni sem ekki var viðhaft þegar nefnd menntmrh. var skipuð, það atriði lýtur að samráði við þá sem starfa á fjölmiðlamarkaði. Gert var ráð fyrir því að nefndin sem þáltill. gerði ráð fyrir að stofnuð yrði hefði samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, við menntmrn. og aðra aðila er málið varðaði og þar með var gert ráð fyrir að fjölbreytnin í vinnu nefndarinnar og sviðið sem hún spannaði væri nægileg til að vinnan yrði ásættanleg.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki liggi fyrir ásættanleg niðurstaða í þessari skýrslu en ég hefði samt sem áður viljað sjá annan framgangsmáta í málinu en raun ber vitni. Ég hefði viljað sjá okkar aðferð verða ofan á en ekki þá aðferð sem hæstv. menntmrh. kaus að fara.

Meðal þess sem kemur fram í þessari skýrslu er að Íslendingar hafa sérstöðu meðal þjóða hvað varðar reglur um fjölmiðla. Þá gildir einu hvort um er að ræða reglur varðandi eignarhald, leyfisveitingar eða aðra þætti fjölmiðla. Hérna er reglusetningin afar lítil, hún er veik og nú hyggst ríkisstjórnin bæta úr því með því að setja reglur um eignarhald og leyfisveitingar. En við skulum vera minnug þess að viðhorf útvarpsréttarnefndar hingað til, sem starfað hefur í umboði hæstv. ríkisstjórnar, hefur verið nokkuð athyglisvert. Ég tel að útvarpsréttarnefnd hafi harla lítið gert annað en undirrita þau leyfi sem sótt hefur verið um. Á þeim bæ hefur ekki verið vilji til að skoða umhverfið eða yfir höfuð setja reglur eða gagnrýna það sem boðið er upp á í fjölmiðlum.

Gott og vel. Ég get í öllum meginatriðum verið sammála því að þörf sé á slíkum reglum. Framganga hæstv. forsrh. í þessu máli er því líkust að hér hafi allt í einu skapast mikið panikástand að þessu leyti. Frú forseti. Ég er ósammála því. Ég sé ekki hvers vegna við erum sett í þá stöðu að ræða þessi áhugaverðu mál undir tímapressu og þrýstingi sem er líkastur því að himinn og jörð séu að farast. Það er öðru nær. Hér er ekkert að gerast sem ekki er hægt að gefa sér tíma til að ræða á lýðræðislegan hátt meðal þjóðarinnar í einhverjar vikur. Það er ekki kviknað í húsinu.

Það er líka nokkuð hvimleitt, frú forseti, að hæstv. forsrh. skuli hleypa umræðunni af stokkunum á þann hátt sem gert hefur verið. Á hvern hátt? Jú, á þann hátt að menn séu dregnir í lið, með eða á móti Baugi, með eða á móti forsrh. (Gripið fram í.), með eða á móti hverju sem er. Ég hafna því, frú forseti, að okkur sé stillt upp á þennan hátt. Ég tel tímapressuna sem sett er á málið gera það að verkum að við höfum ekki andrými, ekki svigrúm til að taka málefnalega á þessu áhugaverða málefni. Það er afar gagnrýnisvert.

Ástandið á íslenskum fjölmiðlamarkaði er í sjálfu sér nokkuð frumstætt miðað við ástandið á fjölmiðlamarkaði í nágrannalöndum okkar. Síðan 1986, þegar frelsi í ljósvakamiðlun var innleitt, hafa sprottið upp fjöldamargar útvarpsstöðvar og nokkrar sjónvarpsstöðvar. Jarðvegurinn sem þessi atvinnurekstur hefur þurft að búa við hefur ekki verið nægilega góður, að því er virðist, til að þessir aðilar geti rekið blómlega starfsemi. Við vitum a.m.k. öll að fjölmiðlar hafa, eftir 1986, gjarnan átt það til að fara á hausinn. Það hefur verið mjög þungt undir fæti hjá þeim fjölmiðlum, ljósvakamiðlum sem sprottið hafa upp eftir að þessi breyting gekk í garð.

Við skulum heldur ekki gleyma því hver er hönnuðurinn að því ástandi sem við búum við núna. Ég tel að ástandið hafi litast af því að litlu fjölmiðlarnir áttu erfitt uppdráttar. Þá gripu fjársterkir aðilar til þess ráðs að bjarga þeim og setja þá alla undir einn hatt. Þá varð mikil samþjöppun. Allt þetta ástand er hannað af flokki hæstv. forsrh., Sjálfstfl., sem á sínum tíma sótti fast að frelsi yrði innleitt hjá ljósvakamiðlunum. Á þessum tíma, árið 1986, þegar þessar breytingar áttu sér stað kölluðu sjálfstæðismenn þetta gjarnan, það ástand sem við þá bjuggum við, einokun Ríkisútvarpsins á fjölmiðlum okkar. Henni varð umfram allt að aflétta. Svo fór að það var gert. En það er kaldhæðnislegt, frú forseti, að þjóðinni og fjölmiðlunum skuli svo ekki gefið ráðrúm til að horfa yfir sviðið, átta sig á þeim hugmyndum sem settar eru fram í skýrslunni sem hér er til umfjöllunar og fá síðan að fjalla á lýðræðislegan hátt um svo viðamiklar breytingar sem hér virðist eiga að ráðast í.

Ég vil að það sé alveg ljóst, frú forseti, að ég hef verið því fylgjandi, frá því að einkaaðilum var heimilaður rekstur ljósvakafjölmiðla, að um slíkan rekstur gildi skýrar reglur. Það sjónarmið mitt hefur ekki breyst. En ég er jafnákveðin í því og áður að hitt sé lífsspursmál fyrir okkur á Íslandi að hafa öflugt ríkisútvarp. Útvarp í almannaeigu sem fái frelsi til að vera einn af máttarstólpum menningar í landinu. Ég segi ,,fái frelsi`` vegna þess að þess hefur óneitanlega gætt að ríkjandi valdhafar hafa virst telja að Ríkisútvarpið ætti að endurspegla stefnu þeirra í helstu málum, með öðrum orðum, að vera nokkurs konar ríkisstjórnarútvarp. Ég tel að okkur beri að vinna gegn slíkri tilhneigingu.

Ég tel ekki hægt að skilja umræðuna um Ríkisútvarpið frá þeirri umræðu sem nú fer fram. Formenn beggja stjórnarflokkanna virðast sammála því sjónarmiði mínu, frú forseti, a.m.k. hafa þeir séð sig knúna til að beina sjónum sínum að afmörkuðum þætti í málefum Ríkisútvarpsins daginn sem frv. forsrh. var kynnt í stjórnarflokkunum, þ.e. afnotagjöldum Ríkisútvarpsins.

Það vekur óneitanlega athygli, frú forseti, að nú skuli ekkert bóla á þeim sið Framsfl., sem þar á bæ hefur verið tíðkaður, a.m.k. síðan þetta stjórnarsamstarf hófst, að standa í vegi fyrir áformum Sjálfstfl. um að þynna út og veikja Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það sem fram kom í fjölmiðlum fyrir tveimur dögum, að nú væru formenn stjórnarflokkanna tilbúnir til að afnema afnotagjöldin. Eftir því sem manni skilst þá á það að verða til að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins. Hæstv. utanrrh. telur stöðu þess veika og rétt sé að breyta afnotagjaldakerfinu og afnema það.

Ég vil vekja athygli þingmanna á því, frú forseti, að þetta sjónarmið formanna stjórnarflokkanna er í andstöðu við sjónarmið höfunda skýrslunnar sem hér er til umræðu. Á bls. 52 í þeirri skýrslu stendur að rétturinn til innheimtu afnotagjalda styrki mjög stöðu Ríkisútvarpsins og sjálfstæðis þess. Hvernig geta afnotagjöld styrkt sjálfstæði Ríkisútvarpsins? Jú, vegna þess að hver einasti einstaklingur sem borgar afnotagjöldin finnur á eigin skinni að hann stendur undir rekstri miðilsins. Það tryggir að almenningur finni til þess að hann eigi miðilinn. Af því að við teljum að eigendur og fjölmiðlarnir séu í sama liði, að ekki sé óeðlilegt að þeir leiki í sama liði, þá telja skýrsluhöfundar greinilega að afnotagjaldakerfið sé forsenda fyrir sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Frú forseti, ég tek undir þau sjónarmið. Mér þykir afar mikilvægt að við höfum það í huga í umræðunum. Mér þykir miður að heyra það að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa neinar hugmyndir um hvernig sé hægt að breyta afnotagjaldakerfinu eða finna á því einhvern flöt sem gæti verið ásættanlegur. Hvers vegna vill hann afnema það? Í umræðunni eru talsvert margar hugmyndir til um útfærslu á afnotagjaldaleiðinni. Ég vil nefna, af því að menn hafa agnúast út í að afnotagjöldin séu lögð á viðtækin eins og við kölluðum þau á árum áður, að uppi hafa verið umræður um að tengja afnotagjöldin fasteignum, íbúðum, fasteignagjöldunum. Ég vil að slík leið sé skoðuð í þessu sambandi. Ef menn ætla að ræða afnotagjaldakerfið og nota tækifærið á þeim skamma tíma sem hér er skammtaður til að fara í aðgerðir sem mundu höggva að sjálfstæði Ríkisútvarpsins, rótum Ríkisútvarpsins, þá vil ég taka fram að við erum á miklum villigötum, frú forseti.

Ein meginreglan í Evrópu varðandi eignarhald á fjölmiðlum virðist sú að eignarhluti aðila í fjölmiðlafyrirtækjum skuli ekki vera stærri en sem nemur þriðjungi af markaði. Þá er stærð markaðarins metin með ýmsu móti, ýmist gengið út frá veltu fyrirtækjanna eða hlutdeild í áhorfendum eða hlustendum. Það er eðlilegt að þessir kostir verði allir skoðaðir í þessari umræðu og metið hver af þeim eigi best við okkur.

Í mínum huga er algerlega nauðsynlegt að upplýsingar um eigendur fjölmiðla séu ekki bara aðgengilegar heldur sýnilegar og mjög sýnilegar. Ég tel það algert grundvallaratriði í þjóðfélaginu sem við búum í núna. Það hlýtur að vera grundvallarskylda hvers fjölmiðils að upplýsa um slíkt. Nú eru upplýsingar um markaðshlutdeild einstakra aðila í fjölmiðlum ekki opinberar, eftir því sem fram kemur í skýrslunni og mér finnst það eðli málsins samkvæmt há nokkuð umræðunni. Í mínum huga er það algert frumskilyrði að allar upplýsingar um eigendur fjölmiðlanna liggi fyrir og séu öllum ljósar.

Einn þáttur þessarar umræðu varðar reglur um sjálfstæði ritstjórna á fjölmiðlum. Auðvitað á að hugleiða reglusetningu þar að lútandi. En maður spyr sig samt, frú forseti, hverju slíkar reglur muni á endanum skila. Er ekki eðlilegt að eigendur fjölmiðla og ritstjórn þeirra séu í sama liði, myndi einhvers konar bandalag? Er ekki eðlilegt að ritstjórinn, sem eigandinn í öllum tilfellum ræður til starfa, starfi með eigandanum? Ég spyr: Er í raun nokkuð athugavert við það? Er ekki eðlilegt að eigandinn og ritstjórinn myndi einhvers konar bandalag? Ég tel það og af því að svo er þá tel ég mikilvægt að allir viti hverjir eigendurnir eru.

Frú forseti. Ef við viljum ekki að fjölmiðlar í einkaeign séu einráðir eða of áhrifamiklir á vettvangi þjóðmálaumræðunnar þá er í mínum huga sterkasta vopn okkar að styrkja Ríkisútvarpið, efla það og tryggja sjálfstæði þess.

Fjölbreytni er mikið til umræðu. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið en ég hefði viljað fjalla nokkuð um fjölbreytnina, sem ég tel nauðsynlegt að ræða um við þessa umræðu. Mér finnst einsleitt að ræða þar um fjölbreytilega eigendur, þ.e. hversu margir eigendur eru að fjölmiðlunum. Mér finnst ekki síður skipta máli að við ræðum um fjölbreytni í dagskrárframboði og ég tel að fjölbreytni sem við búum við í dag sé ekki upp á marga fiska. Þar mætti vissulega margt betur fara en ég sé að ég verð að geyma þennan þátt ræðu minnar þar til í síðari ræðu minni, frú forseti, og lýk máli mínu að sinni.