Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:30:41 (6982)

2004-04-28 15:30:41# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns finnst mér rétt sem þingflokksformaður Frjálsl. í umræðu um skýrslu menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum hér á landi að hnykkja á því að hlutverk nefndarinnar sem hæstv. menntmrh. skipaði þann 19. desember 2003 var fyrst og fremst að meta hvort tilefni væri til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Eins og við höfum séð á undanförnum dögum í þjóðfélagsumræðunni er, eftir að kvisast fór út að skýrslan lægi fyrir og að forsrh. væri að nota hana til að brugga saman frv. með liðsinni ráðherra ríkisstjórnarinnar til að leggja hömlur á það hverjir mega eiga fjölmiðla hér á landi, um gríðarlega flókið og viðkvæmt mál að ræða, mál sem krefst mjög vandaðrar og ítarlegrar umfjöllunar í þjóðfélagi okkar og ekki síst á hinu háa Alþingi. Slík lagasetning má ekki bera keim af því að verið sé að setja lög til höfuðs ákveðnum aðilum og jafnvel af annarlegum hvötum. Hér verður að gæta jafnræðis og sanngirni í hvívetna.

Hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem nú er á leið til meðferðar hins háa Alþingis, frv. sem á að byggja á skýrslunni sem við ræðum í dag gefur því miður ekki tilefni til að ætla að göfugar dyggðir eins og jafnræði og sanngirni hafi verið hafðar að leiðarljósi við setningu þess.

Frú forseti. Þetta frv. er skrípi sem getið er í fljótheitum til að reyna að koma fjölmiðlasamsteypu, sem rétti við gjaldþrotafyrirtæki á sínum tíma og hugnast ekki ríkisstjórninni, fyrir kattarnef og það sem allra fyrst. En nóg um frv. Það er ekki til umræðu í dag. Við ætlum að ræða skýrslu menntmrh. og okkur gefst vonandi nægur tími til að ræða frv. ríkisstjórnarinnar síðar í sölum hins háa Alþingis, þó reyndar sé það komið fram allt of seint og mjög skammur tími eftir af störfum þingsins fyrir sumarfrí.

Mikilvægi fjölmiðla í nútímasamfélagi er að sjálfsögðu óumdeilt. Þeir gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til samfélagsins og eru mikilvæg forsenda þess að þegnar í lýðræðisríki fái notið tjáningarfrelsis. Því gerir almenningur í lýðræðisríki kröfur til þess að hafa aðgang að fjölbreyttum og öflugum fjölmiðlum. Skýrsluhöfundar benda einmitt á þetta með skýrum hætti. Í skýrslunni er meira að segja sagt að sú þjóðréttarlega skylda hvíli á íslenska ríkinu að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum.

Undir þetta má að sjálfsögðu taka. En þá mætum við spurningunni um það hvernig tryggja eigi fjölbreytnina og hvernig við eigum að skilgreina hugtakið fjölbreytni í fjölmiðlum. Getum við, tæplega 300 þúsund manna þjóð, fullyrt að við búum ekki við fjölbreytni í fjölmiðlum í dag? Nú eru gefin út 3 dagblöð hér á landi og á 17 þéttbýlisstöðum koma út samtals 23 héraðsfréttablöð sem gefin eru út reglulega. Eitt blað helgað viðskiptum kemur út tvisvar í viku og er dreift um land allt. Eitt blað helgað sjávarútvegi kemur út vikulega. Síðan má telja aragrúa tímarita með ýmsu efni og við skulum heldur ekki gleyma ýmsum málgögnum stéttarsamtaka, hagsmunahópa og frjálsra félagasamtaka þar sem gróskan er mjög mikil. Margir þessara prentmiðla hafa mikla útbreiðslu víða um land, annaðhvort til almennings eða til þrengri markhópa.

Á síðasta ári voru 17 útvarpsstöðvar hér á landi og til viðbótar því hafði Ríkisútvarpið á að skipa 6 dagskrárrásum, þar sem 4 rásir eru svæðisútvörp í jafn mörgum landshlutum. Mikil gróska hefur verið í rekstri útvarpsstöðva. Frá því að einkaréttur ríkisins til útvarpssendinga var gefinn frjáls fyrir 18 árum hefur 41 ein einkarekin útvarpsstöð hafið göngu sína. Síðan hafa þær komið og farið eins og gengur.

Þegar litið er á sjónvarp eru nú 10 sjónvarpsstöðvar í landinu og þar af teljast 4 senda út á landsvísu. Til viðbótar öllu þessu er mjög umfangsmikil fjölmiðlun fyrir hendi á nýjasta fjölmiðlinum, internetinu. Þar er að finna fréttaveitur, aragrúa af vefslóðum sem veita hinar ýmsu upplýsingar og slóðir sem opna fyrir frjáls og óháð skoðanaskipti. Til viðbótar öllu þessu má svo ekki gleyma því að aðgengi Íslendinga að erlendum fjölmiðum er gott og verður stöðugt betra að dagblöðum, útvarpi, sjónvarpi, netinu og í gegnum breiðband Símans.

Frú forseti. Ég fæ ekki betur séð þegar litið er yfir fjölmiðlaflóruna hér á landi að fólk hafi úr alveg ótrúlegri fjölbreytni í fjölmiðlun að velja og hún er alltaf að aukast. Höfum enn og aftur í huga að hér búa aðeins tæplega 300 þúsund manns.

Komum þá að eignarhaldinu. Frú forseti, áður en lengra er haldið vil ég lýsa því skýrt yfir að Frjálsl. vill vera á varðbergi gagnvart hringamyndun og samþjöppun valds til að koma í veg fyrir einokun. Við höfum aldrei skorast undan því að þessi mál þurfi ávallt að skoða með gagnrýnum hætti. Varðandi fjölmiðla vil ég minna á að einn þingmaður Frjálsl., hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, var einn af fimm flutningsmönnum þáltill. sem lögð var fram á Alþingi í desember sl. Þessi þáltill. á þskj. 485, 366. mál, fjallaði um könnun á starfsumhverfi fjölmiðla og sagði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.``

Nefndin átti að kanna m.a. eftirfarandi atriði sérstaklega:

Hvort það þyrfti að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila.

Hvort setja bæri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.

Hvort ástæða væri til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu.

Einnig átti hún að kanna löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum með hliðsjón af markmiði nefndarstarfsins.

Sérstaklega var tekið fram að nefndin skyldi í störfum sínum hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menntmrn. og aðra aðila er málið varðar.

Eini flokkurinn sem átti ekki aðild að þáltill. sem lögð var fram á hinu háa Alþingi var Samf. sem síðar lagði fram þáltill., og ber að nefna það svo réttlætis sé gætt í málflutningi, um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Frjálsl. var með á þáltill. um starfsumgjörð fjölmiðla ásamt Vinstri grænum, Sjálfstfl. og Framsfl. Flutningsmaður flokksins, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, tók virkan þátt í umræðu um hana. Það er því helber fásinna að hæstv. menntmrh. skyldi koma í ræðustól áðan og fullyrða að Frjálsl. væri annar tveggja flokka á hinu háa Alþingi sem ekkert vildi gera til að skoða starfsumgjörð og eignarhald á fjölmiðlum. Ég sem þingflokksformaður Frjálsl. hlýt að gera þá kröfu að hæstv. menntmrh. komi í ræðustól á eftir þegar ég hef lokið máli mínu og dragi orð sín um Frjálsl. til baka. Þetta er rangt, hæstv. menntmrh., og til eru skjöl á þinginu sem sanna það.

Við í Frjálsl. höfum lengi verið reiðubúin að skoða þetta mál, miklu lengur en ríkisstjórnin. En þegar brugðist er við því sem kalla mætti óæskileg áhrif samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði með lagasetningu þarf að vanda afar vel til verks og vinna það í náinni samvinnu við þá sem málið varðar, ekki síst heildarsamtök blaðamanna og fjölmiðlana sjálfa. Þetta er gríðarlega flókið og vandasamt mál sem varðar hagsmuni fjölmargra. Ekki bara þeirra sem eiga fjölmiðlana, alls ekki. Við megum heldur ekki gleyma þeim sem starfa á fjölmiðlunum og einnig þeim sem nota fjölmiðlana, ekki síst auglýsendum og neytendum.

Frú forseti. Ég sé í skýrslunni að nefnd menntmrh. leggur megináherslu á að takmarka eignarhald á fjölmiðlum. Í framhaldi af því er ljóst að ríkisstjórn hinna svokölluðu frjálslyndu flokka, ríkisafskiptaflokkanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ætlar að fara að setja lög um hverjir eigi að fá að fjárfesta í fjölmiðlum. Þetta þarf að skoða mjög vandlega. Gleymum því ekki að það er mjög dýrt að byggja upp fjölmiðla og einmitt slík uppbygging er nauðsynleg til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun. Þetta kostar peninga.

Þeir sem ákveða að stofna fjölmiðil og þróa miðil sem þeir hafa keypt þurfa að búa yfir miklu fjármagni og vera reiðubúnir til að reka fjölmiðla sína með tapi fyrstu árin. Það þarf að kaupa dýr tæki. Það þarf að skapa markaði, bæði meðal þeirra sem kaupa sér auglýsingapláss í fjölmiðlum og þeirra sem vilja kaupa aðgang að fjölmiðlunum með áskriftum eða með því að kaupa þá í lausasölu. Undantekning á þessu er að sjálfsögðu fjölmiðlar sem dreift er ókeypis til fólks, en þeir fjölmiðlar eru háðir auglýsingatekjum til að bera sig og það er líka dýrt að stofna þá fjölmiðla.

Oftast hafa þeir sem búa yfir fjármagni einmitt grætt það á annarri starfsemi. Hvar fengu þeir sem nú eiga Landsbankann og Eimskip fé sitt? Fundu þeir það einhvers staðar úti á götu? Nei, þeir græddu það á annarri starfsemi. Er þeim þá bannað að eiga banka og kaupskipaútgerð? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Frú forseti. Áður en ég held áfram langar mig að spyrja hvort það hefði í raun ekki frekar mátt íhuga að setja reglur um starfsemi fjölmiðla í stað þess að miða allar hömlur við eignarhaldið og eignarhaldið eingöngu. Ég held að þær hugmyndir sem nú eru á lofti séu illa ígrundaðar, það rekst allt hvert á annars horn þegar maður fer að skoða þetta og velta þessu fyrir sér. Ég ætla ekki mikið að fara út í þá sálma hér og nú, því eins og ég sagði í upphafi máls míns munum við ræða það frekar þegar frv. kemur til umfjöllunar á hinu háa Alþingi.

Frú forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins beina athyglinni að því að undanfarna daga höfum við orðið áþreifanlega vör við það að ríkisstjórnin hefur áhyggjur af samþjöppun. Þá er rétt að staldra við og hugsa: Af hverju hefur þjóðfélagið þróast svona? Jú, ríkisstjórnin ber ríkasta ábyrgð á því að auður hefur verið að færast á færri hendur, samanber til að mynda sjávarútveginn. Þarf ekki að bregðast við hrikalegri samþjöppun þar sem er að leggja heilu byggðirnar í eyði? Ég minni á að nú er einn maður að dunda sér við að breyta helsta fjöreggi í atvinnumálum við Eyjafjörð í spælegg. Þetta er gamla ÚA sem menn hafa af kaldhæðni sinni endurskírt og kalla Brim í dag. Menn flýta sér hægt þar. Hvað með matvörumarkaðinn? Það kemur fram í skýrslunni að Baugur er með 75% af matvörumarkaðnum á Reykjavíkursvæðinu og 50% á landsbyggðinni.

Frú forseti. Þeir sem tala hæst um nauðsyn gagnsæis og hafa af því er virðist miklar áhyggjur af samþjöppun eru sömu menn og vilja alls ekki opna fjármál stjórnmálaflokkanna. Skiptir engu máli hverjir eiga flokkana? Þarf ekki gagnsæi þar eins og í nágrannalöndunum? Það er mikið talað um að búið sé að setja svona reglur um fjölmiðla í nágrannalöndunum. Það er líka búið að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka í nágrannalöndunum. Hvernig væri að draga þær inn í umræðuna? Mér finnst það mjög þarft. Menn hafa verið með alls konar dylgjur á lofti í þjóðfélaginu um að Baugur væri til að mynda búinn að kaupa Samf. með mútum. Frjálsl. hefur jafnvel verið nefndur í þessu sambandi. Ég get upplýst það hér og nú að Baugur hefur aldrei greitt eina einustu krónu í kosningasjóði Frjálsl. Þeir eiga ekkert inni hjá okkur og við eigum ekkert inni hjá þeim. Nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut. Við erum með opið bókhald, við getum sýnt fram á þetta hvenær sem er. Hvað með hina flokkana? Skyldu Norðurljós hafa borgað í kosningasjóði Davíðs Oddssonar? (Gripið fram í: Það eru fleiri flokkar.) En það er Davíð sem leggur frv. fram, frú forseti.