Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:02:43 (6987)

2004-04-28 16:02:43# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta á að verða aðalatriði umræðunnar hér er það mjög athyglisvert. Ég ætla að upplýsa hv. þingmann sem er þingmaður Norðvest. að viðkomandi einstaklingur rekur ekki þann veitingastað sem hann nefndi svo að það sé bara ljóst. Áhyggjur þingmannsins eru algjörlega ótímabærar. (Gripið fram í.)

Hins vegar er mjög athyglisvert hvernig hv. þm. leggur þetta upp hér. Það er alveg augljóst að hann á langt í land með að kynna sér efni þeirrar merkilegu skýrslu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur sjáanlega lesið mjög vel og hefur komist að niðurstöðu um að er hin besta smíði. Hann kinkar kolli yfir því, enda hefur hann sagt það hér margsinnis. Hv. þm. Jóhann Ársælsson þarf að átta sig á því að frv. sem fylgir --- réttara sagt fylgir skýrslan frv. --- gengur út á að tryggja það að markaðsráðandi fyrirtæki geti ekki haft aðgang með eignarhaldi að markaðsráðandi fjölmiðli. Út á það gengur starf okkar þessa vordaga. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn Samf. átti sig fyrr, og miklu fyrr, en síðar.