Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:39:59 (7000)

2004-04-28 16:39:59# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þó að maður eigi auðvitað ekki að venja sig á að gefa umræðum á þinginu einkunn verð ég að segja að ég hefði alveg getað hugsað mér þessa umræðu hér í dag rismeiri en raun ber vitni. Mér finnst hafa farið allt of mikill tími í karp um form og pólitík og of lítill í að ræða efni málsins sjálfs. Það er í hnotskurn: Er ástæða til þess að fara hér á Íslandi svipaða leið og gert er mjög víða í nálægum löndum, þ.e. setja að einhverju marki sérreglur sem eiga að tryggja sjálfstæði og fjölbreytni í fjölmiðlun í landinu? Ef svo er, hvernig eiga þá þær reglur að vera og hvernig á að standa að því að setja þær? Þetta er í mínum huga kjarni málsins. Ég get svo sem gert langt mál stutt og sagt: Já, ég hef verið þeirrar skoðunar lengi og ég er það enn þá, er þar með ekki einn af skoðanaskiptingunum í þessari umræðu, að ástæða sé til að fara vandlega yfir það hvort ekki sé hyggilegt og nauðsynlegt að tryggja með tilteknum sérreglum þetta gríðarlega mikilvæga svið sem er fjölmiðlunin. Það þarf að tryggja að hún sé þannig úr garði gerð, þannig á sig komin, þannig upp byggð, að hún geti þjónað sínu mikilvæga hlutverki vel.

Þetta er vel þekkt umræða. Það er dálítið merkilegt að menn telji sig hafa fundið upp hjólið þegar þeir finna gömul ummæli frá 1995, eða hvað það nú er, þar sem rætt er um stöðu á fjölmiðlamarkaði. Ég held að hún sé miklu eldri. Ég held að það sé mjög langt síðan menn fóru að velta þessu fyrir sér. Ég minni t.d. á að þegar samkeppnislög voru sett 1992--1993 var rætt hvort það væri nóg að hin almennu ákvæði samkeppnislaga tækju líka til fjölmiðlunarinnar, tækju til fjármálaþjónustu, eða hvort nauðsynlegt gæti verið að setja að einhverju marki sérreglur um þessa hluti, eins og mjög víða væri gert. Niðurstaðan varð þá sú að hrófla ekki við því, hvorki hvað varðar fjölmiðla né fjármálastofnanir, en meira og minna síðan hafa af og til komið upp umræður um þetta hvort tveggja, að nauðsynlegt gæti verið að setja með sérreglum ákvæði sem tryggðu t.d. dreift eignarhald á fjármálastofnunum eða tryggðu sjálfstæði, óhæði og fjölbreytni í fjölmiðlun.

Hér hafa menn vitnað í núverandi forseta lýðveldisins, Bessastaðabónda, orða sem hann sagði 1995 og tillögur frá þingmönnum Þjóðvaka um svipað leyti. Allt er þetta ágætt. Þessi umræða fór af stað á nýjan leik á haustdögum eða snemma vetrar. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem þá sat hér á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð lagði fyrirspurn fyrir hæstv. forsrh., henni var svarað og urðu hér allmiklar umræður af þann 19. nóvember sl. Í beinu framhaldi lögðum við svo fram, fimm þingmenn úr fjórum þingflokkum, till. til þál. um að könnuð yrði starfsumgjörð fjölmiðla. Til þeirrar tillögu hefur hér mjög verið vitnað. Hún er ítarleg. Hún telur upp helstu atriði sem að okkar mati er ástæða til að skoða og mælir fyrir um það í lokin að að þessu skuli unnið í góðu samstarfi við aðila eins og Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, ráðuneyti o.s.frv.

Það hefði verið betra, herra forseti, ef sú leið hefði verið valin. Auðvitað hefði verið vandaðri og heppilegri undirbúningur undir umfjöllun Alþingis í framhaldinu að þverpólitísk nefnd hefði starfað að málinu og að á undirbúningsferlinu hefði verið haft samráð við helstu málsaðila, eins og Blaðamannafélagið, fjölmiðlafyrirtækin sjálf o.s.frv. En þá það. Skýrslan er að mörgu leyti, engu að síður, hið ágætasta plagg. Ég tek undir það sem flestir hafa sagt hér, hún er ítarleg og nokkuð vel unnin og allt í góðu lagi með það. Það sem á vantar þá til að undirbúningur málsins sé með þeim hætti sem vera skyldi er einkum samráð við þá aðila sem við eiga að búa. Þá er ég auðvitað sérstaklega að hugsa um blaðamannastéttina. Auðvitað líka fyrirtækin en á þessu tvennu verða menn að gera skýran greinarmun. Það er ekki það sama að halda á faglegum sjónarmiðum blaðamennskunnar og að gæta hagsmuna eigenda fyrirtækjanna. Þar á milli getur verið alveg himinn og haf. En vonandi dettur engum manni í hug að keyra í gegn mikilvæga grundvallarbreytingu á starfsumhverfi fjölmiðla í landinu án nokkurs minnsta samráðs við þá aðila sem við eiga að búa. Það væri heimskulegt og við megum ekki láta slík mistök verða. Það er ávísun á ófrið og málaferli sem engum er greiði gerður með.

Íslensk löggjöf eins og hún er úr garði gerð, og þá eru það fyrst og fremst útvarpslögin og samkeppnislögin sem koma til skoðunar, er mjög veik hvað varðar möguleika á að taka á þeim aðstæðum sem menn óttast að geti skapast ef ekki eru þegar orðnar í fjölmiðlun, þ.e. óhóflegri samþjöppun.

[16:45]

Útvarpslögin útiloka ekki út af fyrir sig að í gegnum skilyrðingu leyfa verði komið við vissum vörnum gagnvart óhóflegri samþjöppun í fjölmiðlaheiminum en þeim hefur ekki verið beitt þannig. Það hefur ekki verið gert. Og menn hafa dregið mjög í efa að samkeppnislögin dygðu til þess að taka á fjölmiðluninni sem slíkri sérstaklega út frá þeim menningarlegu og lýðræðislegu sjónarmiðum sem þar koma til sögunnar til viðbótar hefðbundnum viðskiptasjónarmiðum. Samkeppnislögin gæta eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst hagsmuna neytenda og þess að setja leikreglur í viðskiptalífinu á viðskiptalegum forsendum en taka ekki, a.m.k. ekki að marki, inn í menningarlega eða félagslega þætti. Það er annarra hlutverk að sjá fyrir slíku.

Ég held, herra forseti, að enginn hafi nefnt það enn þá hér í þessari umræðu að þetta tiltekna mál sem aðallega er nú undir í umræðunni, þ.e. tilurð hinnar stóru fjölmiðlasamsteypu Norðurljósa, er til athugunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Samkeppnisyfirvöld tilkynntu nýlega fyrirtækinu að þau tækju sér viðbótarfrest til að skoða málið ítarlegar en nemur þeim mánaðarfresti sem Samkeppnisstofnun hefur til að tjá sig þegar tilkynnt hefur verið um tilkynningarskyldan samruna. Þann 20. febrúar tilkynntu Norðurljós fyrirhugaða sameiningu Norðurljósa og Fréttar og samkeppnisyfirvöld tilkynntu mánuði síðar eða svo að þau tækju sér viðbótarfrest sem getur verið allt að þrír mánuðir, þ.e. fram á mitt sumar, til að skoða hvort þessi tiltekni samruni nái fram að ganga. Eðli málsins samkvæmt mun ekki fyrst og fremst fjölmiðlahlutinn á rekstrinum vera til skoðunar, heldur samspil fjölmiðlanna við fyrirferðarmikil fyrirtæki í viðskiptum í eigu sömu aðila, þ.e. fyrirtæki eins og verslunarsvið Tæknivals, Hagkaup, Skífuna og BT. En þessi samruni er til skoðunar. Þess vegna eiga menn ekki að gefa sér að niðurstaðan liggi fyrir um að menn séu að takast á við þá fjölmiðlasamsteypu sem hér er undirliggjandi, þ.e. Norðurljós í heilu lagi. Að vísu getur vel farið svo, eins og ég segi, að niðurstaðan hafi ekki áhrif á sameiningu fjölmiðlahluta starfseminnar en þó er þarna stutt yfir í aðila sem menn gætu talið að þyrfti að skoða hvort heppilegt væri að tengdust svona sterku markaðsráðandi fjölmiðlafyrirtæki, þ.e. aðila sem eru áhrifamiklir á auglýsingamarkaði. Menn verða að huga að því þegar hér er rætt um fjölmiðlana að viðskiptalegi þátturinn kemur þar inn í líka, að áhrifamiklir aðilar í viðskiptalífinu, t.d. í smásöluverslun, eru meðal stærstu auglýsenda í landinu. Þar með eru þeir einn helsti tekjugjafi fjölmiðlafyrirtækjanna sem lifa að verulegu leyti á því að selja auglýsingar eins og kunnugt er.

Í skýrslunni er ágætlega farið yfir alþjóðareglur og skuldbindingar í þessum efnum og þar er minnt á Evrópuráðssamþykktir, talað um mannréttindasáttmála Evrópu og dómavenjur Evrópudómstólsins. Ég tel tímabært, og þótt fyrr hefði verið, að menn taki þá hluti hér til umfjöllunar og umræðu á Íslandi. Það má segja að þetta sé nokkuð síðbúin uppgötvun þar sem seinni ályktun eða samþykkt Evrópuráðsins er frá 1999. Reyndar birti Morgunblaðið í dag umfjöllun um umfjöllun Evrópusambandsins eða Evrópuþingsins um málið í síðustu viku. Það er alveg ljóst hver tónninn er í allri þessari umfjöllun og hvað menn eru að reyna að gera með þessum tilskipunum, þ.e. að tryggja þessi mikilvægu grundvallarmarkmið um sjálfstæða, fjölbreytta og hlutlæga fjölmiðlun.

Um það getur ekki verið ágreiningur, herra forseti, að það sé æskilegt. Ég trúi ekki að um það sé neinn ágreiningur í þessum sal. Ágreiningurinn getur aðeins verið um leiðir, hvaða leiðir séu þá bestar og færastar að því marki.

Dugar hin almenna samkeppnislöggjöf? Duga núgildandi útvarpslög eða önnur möguleg ákvæði sem þarna gætu átt við eða verðum við að fara þá leið, þótt ekki væri nema til öryggis, ekki endilega vegna núverandi ástands, heldur vegna framtíðarinnar, að setja ákveðnar leikreglur, ákveðinn ramma, með sérákvæðum? Það er sú leið sem víðast hvar hefur verið farin og ég hallast að því að við eigum ekki annan kost. Þær reglur verður þó að setja með hliðsjón af íslenskum aðstæðum, smæð markaðarins og því hvað er raunhæft að ætla að hér verði mörg burðug fyrirtæki á þessu sviði, þ.e. í fjölmiðlun. Skýrslan er ágæt hvað það varðar. Í skýrslunni eru rækilega slegnir þeir fyrirvarar að menn geti ekki endilega reiknað með að viðmiðanir frá milljónaþjóðum eða milljónatugaþjóðum gildi hér. Ég held t.d. að þær takmarkanir sem eru í bæði Þýskalandi og Frakklandi, jafnvel í Bretlandi, séu óraunhæfar á Íslandi. Það þýðir ekkert að tala um það hér að hvert og eitt fyrirtæki megi aldrei hafa meira en 20, 25, 30% markaðshlutdeild, það er óraunhæft. Það þýðir samt ekki að við getum ekki sett einhverjar reglur. Það þýðir ekki að við látum óbreytt ástand haldast sem þýðir, eins og a.m.k. hefur verið nefnt af einum manni hér fyrr í umræðunni, að fyrirtækið Árvakur gæti á morgun keypt Norðurljós. Það er engin trygging fyrir því, að óbreyttum lögum, að það yrði stöðvað. (Gripið fram í.) Einasta vonin væri að Samkeppnisstofnun treysti sér til þess að stoppa það á almennum samkeppnisforsendum, ekki vegna fjölmiðlahlutverksins sem slíks enda er ekki hlutverk Samkeppnisstofnunar að meta þá hluti.

Ég tel margt í þessari skýrslu góðra gjalda vert og ég ætla áfram að halda mig við efni hennar.

Ég fagna því að Ríkisútvarpið er þar nefnt og hið mikilvæga hlutverk þess. Það er orðin ánægjuleg viðhorfsbreyting fyrir ótrúlegustu menn sem tala nú máli Ríkisútvarpsins, halda fram mikilvægi þess og verja jafnvel afnotagjöldin í leiðinni.

Ég held að þær leiðir sem nefndar eru í skýrslunni til að hindra óhæfilega samþjöppun komi margar til greina, þar á meðal sumar sem nefndar eru í frv. ríkisstjórnarinnar, en þær einar og sér eru ekki endilega nein lausn og sumpart gætu þær mistekist. Þær gætu gert það, ég tala nú ekki um ef óhönduglega er staðið að setningu þeirra.

Ég sakna í frv., svo ég aðeins leyfi mér að nefna það, þess að meiri áhersla sé þar lögð á gagnsæi eignarhalds í fjölmiðlun. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég held að aðlögunin að þeim nýju leikreglum sem við setjum verði auðvitað líka að standast allar kröfur, meðalhófsregluna, sanngirnisreglur. Menn verða að fá eðlilegan afskriftatíma eða fyrningartíma þeirra fjárfestinga sem þeir hafa nýlega ráðist í en það þýðir ekki að við getum ekki gert breytingar. Það þýðir ekki að menn geti ekki, þegar þeir hafa haft eðlilega aðlögun að því, orðið að sæta þeim, taka þær á sig. Ég tek ekkert mark á því að það sé engin leið að ná fjármagni inn í fjölmiðlun á Íslandi nema sækja það í vasa eins tiltekins markaðsráðandi fyrirtækis. Ég held að það hljóti að mega setja hér almennar og skýrar leikreglur sem eru þannig úr garði gerðar að það er eftir sem áður fýsilegt og áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á og vilja spreyta sig í fjölmiðlarekstri að gera það. Auðvitað eru víða í viðskiptalífi okkar slíkar sérreglur.

Eitt er víst og það er, herra forseti, að þetta mál verðskuldar að það verði skoðað af yfirvegun, málefnalega. Ég hafna því algjörlega og við gerum það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að ræða þetta mál út frá því að við séum með eða á móti einhverjum í liði í þessu máli. Þetta mál verðskuldar ekki slíka umfjöllun. Menn eiga ekki að hrökkva ofan í skotgrafir vegna einhverra tímabundinna ástæðna eða vegna þess að þeim líki ekki aðdragandinn að því hvernig málin komu hér inn á þingið, þótt gagnrýnisverður sé. Það er ljóður á málinu en það gerir það ekki að verkum að menn eigi að hafna því að takast á við að ræða það málefnalega. Nú er svo komið að þetta mál er á forræði Alþingis með því að frv. hefur verið lagt hér fram og skýrslan er komin hingað til umfjöllunar. Auðvitað á Alþingi að taka sér þann tíma sem það þarf til að skoða málið og hafa um það víðtækt samráð við þá sem við eiga að búa og reyna að ná sem víðtækastri sátt um aðgerðir á þessu sviði sem ég spái að fyrr eða síðar muni líta dagsins ljós, ekki þó endilega vegna núverandi ástands. Ég er ekki í þeim hópi sem heldur því fram að í dag eigi sér stað einhver stórfelld misnotkun. Við ætlum hins vegar að fyrirbyggja að ástandið verði þannig eftir fimm eða tíu ár að við eigum þá einhverja íslenska Berlusconi-menn eða aðra slíka sem kannski réðu lögum og lofum í fjölmiðluninni í landinu og sætu líka á þingi.