Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:01:22 (7001)

2004-04-28 18:01:22# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Grundvöllurinn að þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunni sem verið er að fjalla um er stefnumörkun Evrópuráðsins, en í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að ríkið viðhaldi almenningsútvarpi eða ríkisútvarpi, að ríkið skapi slíkum fyrirtækjum fjárhagslegan grundvöll, að ríkið skapi starfsfólki þeirra faglegt sjálfstæði og að það skapi stofnuninni tækifæri og svigrúm til að þróast og til að nýta sér þær nýjungar og þá möguleika sem felast í bættri og nýrri fjarskipta- og útvarpstækni.

Eitt af umfjöllunarefnum skýrsluhöfunda er staða ríkissjónvarpsins. Með því að styrkja og tryggja stöðu þess til frambúðar væri farin sú leið sem í raun gengur skemmst af þeim sem sagt er frá í skýrslunni að komi til greina í því skyni að ná því markmiði sem að er stefnt, sem er fjölbreytilegt fjölmiðlaumhverfi sem tryggi menningarlega og pólitíska fjölbreytni í fjölmiðlaumhverfinu. Sú leið felur ekki í sér neitt beint inngrip í umhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sú leið samræmist þar með meginreglum um frelsi markaðarins að öðru leyti en því að almenningsútvarp yrði tryggður hluti markaðarins en einkaaðilar skiptu honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni. Þá stefnumörkun getum við gert að okkar að mestu án breytinga á gildandi lögum.

Mig langar í þessu samhengi að fagna sérstaklega minnisblaði því sem menntmrh. kynnti ríkisstjórn með skýrslunni. Þar kemur fram að staða Ríkisútvarpsins verði tekin sérstaklega til skoðunar á grundvelli skýrslu nefndarinnar með það að markmiði að tryggja Ríkisútvarpinu trausta stöðu til framtíðar á markaði, bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Í því sambandi tel ég mesta þörf á aðgerðum sem beinast að því m.a. að ríkið skilgreini leiðir til að tryggja viðeigandi og örugga fjármögnun Ríkisútvarpsins til frambúðar líkt og vísað er til í skýrslunni. Yfirlýsingar hæstv. forsrh., utanrrh. og menntmrh. um að rétt sé að afnema afnotagjöld og huga að nýjum leiðum til að tryggja stofnuninni rekstrarfé gefa okkur sem erum stuðningsmenn Ríkisútvarps og -sjónvarps tilefni til bjartsýni á að þess sé skammt að bíða að fundin verði leið til að binda enda á langvarandi rekstrarvanda Ríkisútvarpsins, vanda sem nauðsynlegt er að viðurkenna og vanda sem Alþingi verður fyrir sitt leyti að axla ábyrgðina á.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að bregðast við þeirri niðurstöðu í skýrslu nefndarinnar að á íslenska ríkinu hvíli þjóðréttarleg skuldbinding til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum og hefur lagt fram frv. í því skyni að uppfylla þá skuldbindingu vil ég árétta, frú forseti, að um leið og sú löggjöf verður að veruleika, hvernig sem fer með hugsanlegar breytingar á frv., og farið verður að huga að möguleikum á því að treysta fjárhagslegan og faglegan grundvöll Ríkisútvarpsins er rétt að kannað verði gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að stíga skref í þá átt að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Ég tel að rétt sé að huga að þeirri leið í samkeppni við óhjákvæmilegar aðgerðir til að sporna gegn samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlamarkaðnum.

Það markmið sem stefnt er að með frv. er fjölbreytni. Til þess að ná þeirri fjölbreytni er nauðsynlegt að hlutast til um málefni fjölmiðla á einkamarkaði og setja þeim að nokkru leyti þrengri skorður en þeir búa við nú. En um leið er lýst yfir að litið sé svo á til frambúðar að ákveðin sneið af fjölmiðlamarkaði í landinu hafi verið tekin frá fyrir rekstur Ríkisútvarps, enda lýtur rekstur þeirrar stofnunar að einverju leyti að öðrum lögmálum en annar fjölmiðlarekstur í landinu eins og ég hef rakið og á sér m.a. sérstök lýðræðisleg markmið auk þeirra menningarlegu markmiða sem Ríkisútvarpinu er ætlað að stefna að og því hlutverki sem því er ætlað að sinna.

Ég tel þess vegna rétt að við aðgerðir til þess að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins til frambúðar verði leitað leiða til þess að milda eða draga úr áhrifum þess óhjákvæmilega inngrips í rekstrarumhverfi fjölmiðla sem mun leiða af lagasetningu um þau atriði sem lúta að eignarhaldi með því að stefna að því að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði, eða a.m.k. að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins verulega á þeim markaði. Til þessa hefur vera Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verið m.a. Samtökum auglýsenda að skapi, einmitt vegna þeirrar stöðu sem leiðir af samþjöppun í eignarhaldi miðlanna og þeirra yfirburða sem sú staða hefur fært eigendum þeirra miðla á borð við þann sem mest er ræddur í umræðunni og eru Norðurljós, en yfirburðarstaða þeirra hefur falist í því að þeir hafa náð hagstæðari samningum um auglýsingaverð en keppninautar þeirra á ýmsum markaði og hagstæðari samningum en aðrir hafa getað vænst í samningum við þá fjölmiðla.

Við núverandi aðstæður er nærvera Ríkisútvarpsins og styrkleiki á auglýsingamarkaði til þess fallinn að tryggja heilbrigða viðskiptahætti og nærvera Ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins er til þess fallin að vinna gegn verðhækkun til almennra fyrirtækja og jafnframt vinna gegn vildarboðum til þeirra fyrirtækja sem vegna eignatengsla njóta betri samningsstöðu en aðrir viðskiptavinir. Ég lít svo á að í kjölfar lagasetningar sem er ætlað að vinna gegn því að eigendur miðla geti misnotað ítök sín í þeim tilgangi að tryggja sér yfirburðarstöðu umfram keppinauta á auglýsingamarkaði tel ég að önnur sjónarmið eigi við um veru Ríkisútvarpsins á þeim markaði og vil velta því upp að kannaðir verði möguleikar á að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins á annan hátt að fullu eða öllu með nefskatti, en að við látum til framtíðar einkareknu miðlunum auglýsingamarkaðinn eftir.

Annað sem ég vil nefna í umræðunni, frú forseti, er tillaga nefndarinnar um að sett verði lög um prentrétt, sett verði í þau ákvæði sem skylda fyrirtæki í dagblaðaútgáfu til þess að setja sér innri reglur sem miði að því að tryggja sjálfstæði blaðamanna og ritstjóra gagnvart eigendum og enn fremur reglur um stöðu blaðamanna gagnvart ritstjórninni. Sambærileg ákvæði verði svo jafnframt sett í útvarpslög sem miði að því að tryggja sjálfstæði frétta- og dagskrárgerðarmanna gagnvart eigendum fyrirtækja í útvarpsrekstri. Enn fremur verði gert ráð fyrir að menntmrh. semji leiðbeiningarreglur sem að þessu lúta og að menntmrh. staðfesti jafnvel reglur sem fjölmiðlafyrirtæki vilja setja sér.

Ég styð þá tillögu og fagna því að í minnisblaði frá menntmrh. sem ég nefndi áðan og fylgdi skýrslunni er þetta tekið fram sem ein leiðin sem rétt sé að könnuð verði í framhaldi af lagasetningunni. Þó vissulega séu ákveðnir örðugleikar á því að framfylgja slíkum reglum, eins og líka er bent á í skýrslunni sem hér um ræðir, er mögulegt að reglurnar geti verið blaðamönnum og ritstjórum nokkur vernd gagnvart afskiptum og aðgerðum eiganda vegna umfjöllunar þeirra fyrrnefndu um almenn málefni sem eigendur telja hugsanlega andstæða viðskiptalegum hagsmunum sínum.

Ég tel að þetta sé afar mikilvægt og undirstrika að sjálfstæð, fagleg og óháð fjölmiðlun, eins og margoft hefur komið fram og verið haldið fram af mörgum í umræðunni í dag, er mikilvægur grundvallarþáttur í sérhverju lýðræðisríki. Þetta er ein af þeim leiðum sem Evrópuráðið mælir með að séu skoðaðar til að tryggja fjölbreytnina sem við erum öll að sækjast eftir og viljum styðja. Ég tel augljóst, frú forseti, að slík löggjöf þurfi ekki aðeins að tryggja sjálfstæði starfsfólks fjölmiðla á einkareknu miðlunum, heldur einnig og ekki síður sjálfstæði starfsfólks almenningsútvarpsins, Ríkisútvarpsins, sem hefur sérstakar lögbundnar skyldur við almenning í landinu.

Mig langar að enda mál mitt á því, frú forseti, að ræða þá menningarlegu fjölbreytni sem svo oft hefur borið á góma í umræðunum í dag. Ljóst er að í frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram er fyrst og fremst lögð áhersla á fjölbreytni á eignarhaldi. Aðrir hafa dregið upp einhverja aðra hugmynd að þeirri fjölbreytni í dag. Mig minnir að hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hafi talað um fjölbreytni í umfjöllun og aðrir hafa talað um fjölbreytni í framboði efnis í fjölmiðlunum, að við eigum fyrst og fremst að standa vörð um það.

Það sem mig langaði að koma að er að sú fjölbreytni sem ætlunin er að ná fram með frv. er í rauninni fjölbreytni sem er ætlað að vera grundvöllur undir ákveðið traust í samfélaginu, ákveðið traust sem almenningur á að geta borið til fjölmiðlanna og umfjöllunar þeirra um hvers konar fréttir. Að mínu mati snýst þetta ekki um að við sýnum fram á einhverja misnotkun markaðsráðandi fyrirtækja sem eru stærst á markaðnum, heldur byggir þetta fyrst og fremst á svipuðum sjónarmiðum og eiga við um hæfi eða réttara sagt um vanhæfi, hvort sem er í stjórnsýslunni eða hjá dómstólunum. Að mínu mati er þetta spurningin um hvað almenningur megi treysta, að aðstæður eða eignarhald sé ekki með þeim hætti að það þurfi að óttast um óvilhalla umfjöllun.

Ég er sammála því sem hefur oft komið fram í umræðunni, að nauðsynlegt sé að allir neytendur viti hverjir eigi fjölmiðlana og að upplýsingar um það hverjir eigi fjölmiðlana séu opinberar og aðgengilegar. Ég held þó sannast sagna að almenningur hafi annað og þarfara að gera og sinna frá degi til dags en að velta sér upp úr því. Þess vegna legg ég áherslu á að þetta sé ekki spurningin um að það þurfi að sýna fram á að menn ætli sér eitthvað misjafnt, heldur er þetta spurningin um traust almennings og að almenningur geti þokkalega treyst því, auk þess að vita hverjir eiga fjölmiðlana, að umfjöllun þeirra sé óvilhöll. Að því leyti held ég að vert sé að horfa til sömu sjónarmiða og menn horfa til þegar verið er að ræða hæfis- og vanhæfisreglur. Það þarf ekki endilega að sýna fram á vanhæfi, en aðstæður mega ekki vera þannig að það hvarfli að fólki að það séu einhverjar annarlegar skoðanir eða ástæður að baki.