Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:17:20 (7007)

2004-04-28 18:17:20# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns skar sig frá öðrum ræðum stjórnarliða að því leyti til að hún gerði heiðarlega tilraun til þess að nálgast þau vandamál sem hugsanlega kynnu að fylgja aukinni samþjöppun á fjölmiðlamarkaði.

Það var tvennt sem kom fram í máli hv. þingmanns sem mér finnst rétt að lyfta. Hv. þm. sagði að hún teldi að það ætti að setja sérstakar reglur til þess að vernda starfsfrelsi, annars vegar ritstjórna gagnvart eigendum sínum og hins vegar blaðamanna gagnvart ritstjórum sínum. Ég er algjörlega sammála þessu.

Sömuleiðis sagði hv. þm. að hún teldi að það ætti að setja lög um gagnsæi í eignarhaldi. Ég er sömuleiðis algjörlega sammála því.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hið fyrra, þ.e. lögin um vernd starfsfrelsis blaðamanna og ritstjórna, dygðu ekki til þess að ná öllum þeim markmiðum sem hv. þm. var að lýsa hér, m.a. að ekki léki grunur á misnotkun og sömuleiðis um óhæfi þessara starfshópa gagnvart eigendunum.