Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:19:41 (7009)

2004-04-28 18:19:41# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Að mörgu leyti liggur ágreiningur minn og Samf. við stjórnarliðið í þessu tiltekna máli um þann skurðpunkt. Ég get deilt áhyggjunum sem hv. þm. hafði af vissri þróun sem hún lýsti að gæti átt sér stað á þessum markaði. Eins og ég sagði kom í fyrsta skipti hingað upp þingmaður stjórnarliðsins og benti á vandkvæðin og neikvæðar afleiðingar sem af því kynnu að hljótast.

Ágreiningur minn við hv. þingmann liggur í því að ég tel að ef skörp lög yrðu sett eða reglur sem tryggðu starfsfrelsi blaðamanna gagnvart yfirmönnum sínum og ritstjórnarskrifstofa gagnvart eigendum sínum mundum við ná því markmiði að ýta frá því vandamáli sem hún lýsti að ýmsu leyti ágætlega í sinni fyrstu ræðu.

Ég er reiðubúinn til þess að skoða hvort ég hafi rangt fyrir mér en enn hafa engin gild rök komið fram um það.