Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:20:50 (7010)

2004-04-28 18:20:50# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Vandamál mitt í umræðunni í dag, sem ég hef fylgst grannt með og hlustað á af athygli, hefur fyrst og fremst verið það að ég hef alls ekkert áttað mig á því hvað Samf. vill. Mér hefur fundist Samf. leggja megináherslu á aðdraganda þessa máls. Hann er ekki meginefnið. Mér hefur líka fundist ég heyra þau sjónarmið að það eigi aldrei að setja lög nema það þurfi að slökkva einhverja elda, einhver hætta vofi yfir.

Hið eina sem ég veit um stefnu Samf. í þessu máli og áherslur eru þær sem felast í þessu ágæta þingmáli sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér áðan, og ég tók líka undir. Ég tel að reglur sem eru til þess fallnar að styðja sjálfstæði fjölmiðlamanna gagnvart eigendum og ritstjórn, og ritstjórna gagnvart eigendum, séu þess verðar að huga að því að setja þær jafnhliða því að setja lög um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlunum.