Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:28:18 (7016)

2004-04-28 18:28:18# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vilja auglýsenda kom ég inn á það í ræðu minni áðan að þeir eru hlynntir því að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði. Það skapar samkeppni við þann markaðsráðandi aðila sem ræður hinum stöðvunum. Þess vegna eru þeir hlynntir því. Að breyttum lögum, með því að takmarka eignarhaldið, sagði ég í ræðu minni að væru komnar forsendur fyrir því að taka Ríkisútvarpið inn á, enda skapaði dreift eignarhald á einkareknu fjölmiðlunum samkeppni á milli þeirra. Með þeim rökum tel ég að í kjölfar þess að frv. verði að lögum, ef svo fer, og við takmörkum eignarhaldið getum við hugsanlega skapað þær aðstæður að það verði samkeppni á milli einkarekinna fjölmiðla en ekki þessi markaðsráðandi staða sem núna er.

Hvað afnotagjöldin varðar er það ekki sami hluturinn að afnema afnotagjöldin og ætla að veikja fjárhagslegan grundvöll Ríkisútvarpsins. Það má styrkja Ríkisútvarpið fjárhagslega og faglega eftir öðrum fjármögnunarleiðum.