Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:46:22 (7020)

2004-04-28 18:46:22# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög áhugavert að hlusta á hæstv. dómsmrh., fyrrv. ritstjóra Morgunblaðsins og einn af hluthöfum í Árvakri, tala um fjölbreytni í fjölmiðlum og að þá þyrfti að tryggja. Málið er, og ég benti á það í ræðu minni fyrr í dag, að fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Það er staðreynd og það stendur allt um það í þessari ágætu skýrslu. Það eru 10 sjónvarpsstöðvar, 3 dagblöð, 23 héraðsfréttablöð, ótal fagblöð og málgögn hagsmunasamtaka og ég veit ekki hvað og hvað. Við erum með fjölmiðla á internetinu og 17 útvarpsstöðvar, held ég. Það er því mikil fjölbreytni.

Eignarhaldið er aftur á móti allt annað mál. En að ætla sér að fara að ráðast á eignarhaldið með því að skírskota til þess að það skorti fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi er bara röksemd sem ég kaupi ekki. Ég kaupi ekki þá röksemd á Íslandi í dag árið 2004. Stjórnirnar verða að koma með einhverja aðra lykilröksemd en þetta ef þeir ætla að selja okkur þetta blessaða frv. á hinu háa Alþingi eða þjóðinni. Það er nefnilega mjög mikil fjölbreytni og gróska í íslenskum fjölmiðlum og ekkert sem bannar mönnum að stofna nýja fjölmiðla í dag, gætum líka að því. Fjölbreytni, ókei, einokun, allt í lagi.

Mig langar einmitt að spyrja hæstv. dómsmrh. um einokun og fjölbreytni. Hvað finnst honum t.d. um það, sem sjálfur er hluthafi í næststærsta dagblaði landsins, að næststærsta dagblað landsins er líka eigandi að stærsta netfréttamiðli Íslands? Af hverju eru ekki sett lög um það?