Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:55:23 (7026)

2004-04-28 18:55:23# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Skýrslan er vissulega ágæt á margan hátt en hún veldur engum þáttaskilum. Það hefur áður verið skrifað um fjölmiðlun og safnað saman gögnum um hana. Það sem veldur minnstum þáttaskilum í skýrslunni er 6. kafli hennar sem eru hugmyndir og tillögur nefndarinnar, vegna þess að þar er boðið upp á það sem kallað var um daginn hlaðborð af hugmyndum og tillögum af ýmsu tagi. Það er helsti veikleiki skýrslunnar, enda er hún sett saman af stjórnarflokkunum sem hæstv. forsrh. lýsti sem einhverju sérstöku apparati í stjórnskipaninni. Hún er ,,quod erat demonstrandum``. Hún kemur að lokum með það sem þurfti að sanna og þurfti að vita eftir allan þann fróðleik sem hún færir fram. Aðalatriðið er að hún uppfylli það pólitíska skipunarbréf að koma með tillögur um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum.

Spyrja má: Hún gerir það já. Hún vill takmarka eignarhald á ljósvakamiðlunum, en hún vildi líka takmarka eignarhald á dagblöðunum og af hverju er það ekki í frv., hæstv. dómsmrh.? (Gripið fram í.)