Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 19:01:47 (7030)

2004-04-28 19:01:47# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Um þá hagsmuni sem Samf. gætir við þessa umræðu nægir í sjálfu sér að vísa hæstv. dómsmrh. á ágætar ræður hv. þm. Björns Bjarnasonar um þau efni á fyrri þingum. Þó er mest um vert, og það ætti Björn Bjarnason að þekkja frá aðild sinni að útgáfustarfsemi fyrr á árum, frá tilraunum Morgunblaðsins við að koma Stöð 3 á fót og sem menntmrh., að hafa fylgst með því hvernig erfiðleikarnir hafa herjað á ljósvakafyrirtæki í einkaeigu og hvernig rekstrarerfiðleikarnir hafa leikið þau, að það eru mikilsverðir hagsmunir að einkaaðilum sé gert kleift og sem auðveldast að leggja fjármagn inn í þessa starfsemi, í innlenda dagskrárgerð, í fréttaöflun og fréttamiðlun. Ef skrúfað er fyrir þann krana þá eru menn að kyrkja hina frjálsu fjölmiðla.

Það er ótrúlegt að árið 2004 standi fyrrv. menntmrh., hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason, og leggi til að skrúfa fyrir líflínu frjálsu fjölmiðlanna til að tryggja yfirráð ríkissjónvarps Sjálfstfl. á þessum markaði.