Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:31:52 (7032)

2004-04-28 20:31:52# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt og á köflum skemmtilegt að hlusta á þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Ég held að ég geti dregið sameiginlega niðurstöðu allra sem hér hafa talað, nánast allra, hugsanlega utan eins, í eftirfarandi setningu: Menn vilja tryggja og efla fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Það er auðvitað markmið sem við eigum öll að keppa að og mér þótti sérlega eftirtektarvert að hlusta á ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz hér í dag. Mér þótti sú ræða einna best frá hv. þingmönnum stjórnarliðsins. Hún var málefnaleg og hún nálgaðist kjarna umræðunnar en hins vegar verð ég að segja að hæstv. dómsmrh. flutti sennilega einhverja ómálefnalegustu ræðu sem hér hefur verið haldin ákaflega lengi.

Herra forseti. Freudískt rof er það nefnt þegar mönnum verða á mismæli og þeir mæla af vörum fram orð sem hafa að geyma dulda meiningu sem oft gengur þvert á það sem viðkomandi er að segja. Hæstv. dómsmrh. talaði áðan um þróun fjölmiðlunar á Íslandi og sagði að það þingmál sem hér væri undir væri bautasteinn á henni. En eins og ég hygg að hæstv. forseti viti var orðið bautasteinn notað um minnisvarða sem settur var á forn grafstæði, og er enn. Hugsanlega átti hæstv. dómsmrh. við að það væri varði á þróun fjölmiðlunarinnar en ég get vel ímyndað mér að undirmeðvitundin eftir þá umræðu sem hér var í dag hafi skotið þessu orði upp. Mál hans og viðhorf til þessa máls þóttu mér að ýmsu leyti eiga skilið orðið bautasteinn.

Áður en ég tek þessa skýrslu sérstaklega til umræðu vil ég aðeins leyfa mér að svara nokkru af því sem hæstv. dómsmrh. sagði. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega að ég hefði í umræðu fyrir tveimur árum nefnt að það ætti að gefa Samkeppnisstofnun möguleika á að taka á stórfyrirtækjum sem hefðu markaðsráðandi stöðu og hugsanlega gefa henni tæki til að brjóta þau upp.

Herra forseti. Það er rétt að ég sagði þetta, og ég sagði það um fyrirtækið Baug. Þá lá fyrir skýrsla sem sýndi að þróunin á matvælamarkaði var slík að Baugur hafði ofurtök og skýrslan hafði jafnframt komið fram sem benti til þess að þessi ofurtök hefði fyrirtækið notað sér gegn almenningi. Við slíkar aðstæður ber almannavaldinu að taka í taumana með einhverjum hætti.

Herra forseti. Það er með engu móti hægt að jafna þessu saman við það ástand sem við erum að ræða hér. Nú, eins og þá, liggur að sönnu fyrir skýrsla, þ.e. skýrsla um stöðu á fjölmiðlamarkaði, en hún sýnir allt annað. Hún sýnir að fjölbreytni ríkir á fjölmiðlamarkaði. Þvert á það sem hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni er staðan á fjölmiðlamarkaði bara þokkalega góð. Mig langar, herra forseti, þessu til staðfestingar að vísa í nokkra staði í skýrslunni. Á bls. 13 segir, með leyfi forseta:

,,Fjölbreytni er mikil á hljóðvarpsmarkaði þegar litið er til fjölda stöðva, en síður þegar litið er til dagskrár þeirra.`` --- Síðan er sagt frá því að sumar einkastöðvarnar höfði fyrst og fremst til ungs fólks. En fjölbreytni er mikil. Síðar segir á bls. 23:

,,Íslenskur sjónvarpsmarkaður er fjölbreyttur þegar litið er til fjölda sjónvarpsstöðva og að teknu tilliti til smæðar íslensks þjóðfélags.`` --- Enn segir á bls. 27:

,,Framboð sjónvarpsefnis hefur margfaldast á undanförnum árum samfara fjölgun stöðva.`` --- Og á bls. 35:

,,Stóraukið framboð sjónvarpsefnis samfara fjölgun sjónvarpsstöðva á undanförnum árum hefur aðeins að óverulegu leyti dregið úr hlutdeild sjónvarpsins í áhorfi...``

Herra forseti. Þær tilvitnanir sem ég hef lesið birta ástand sem er harla gott á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Fjölbreytni er mikil, sama hvar á er litið. Ég vil þó líka geta þess að í skýrslunni er sagt að á fjölmiðlamarkaði séu einkenni samþjöppunar. Því miður gera slík einkenni mjög víða vart við sig í íslensku atvinnulífi. En það kemur ekki fram í skýrslunni að einkenni samþjöppunarinnar séu svo óheillavænleg að grípa þurfi til einhverrar sérstakrar lagasetningar. Þvert á móti er bent á ýmsar leiðir sem hægt væri að fara til að vinna gegn þessum einkennum og um sum þeirra er sérstaklega tekið fram að ekki þurfi einu sinni lagasetningu.

Ég vil segja það, herra forseti, að sú skýrsla sem hér liggur fyrir er að mínu viti góð og álit mitt á henni batnar því lengur sem ég les hana. Ég tel að hér sé saman dreginn mikill fróðleikur og ég vil að gefnu tilefni frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni segja að auðvitað hefði ég kosið að fleiri hefðu komið að henni, fulltrúar stjórnarandstöðunnar ekki síst, og eftir atvikum hefðu líka ýmsir þeirra sem vildu koma viðhorfum sínum á framfæri átt að gera það. Það dregur samt ekki úr því að mér finnst það sem kemur fram í skýrslunni vera harla gott. Þar er bent á margar leiðir sem ég get tekið undir. Þar er t.d. sérstaklega lyft undir ákveðnar leiðir sem koma fram í stefnumótun Samf. eins og hún birtist í þingmáli sem við höfum dreift og hefur verið töluvert í umræðunni.

Það sem mér finnst hins vegar ákaflega slæmt, virðulegi forseti, er sú staðreynd að þó að skýrslan sé góð og gæti verið ágætur grunnur að lagasetningu ef menn teldu hennar þörf er í því frv. sem hér hefur verið dregið inn í umræðuna, m.a. af hæstv. ráðherrum, vikið í veigamiklum atriðum frá meginniðurstöðum þessarar skýrslu. Í skýrslunni kemur til að mynda fram, herra forseti, að höfundar mæla með því að sett verði lagaleg skylda á ritstjórnir prentmiðla og samsvarandi ákvæði í útvarpslög sem eiga að vernda sjálfstæði ritstjórnanna. Þetta tel ég algjört lykilatriði og þetta er lykilatriði í þeirri nálgun sem við þingmenn Samf. höfum í þessu máli.

Að gefnu tilefni, herra forseti, rifja ég upp að þetta er þrítekið fram í skýrslunni. Hið gefna tilefni sem ég er að vísa til er auðvitað orð og útúrsnúningur hæstv. dómsmrh. sem spurði mig sem formann Samf. hvaðan í ósköpunum við gætum fengið hugmynd um það að vilja setja einhverjar reglur um sjálfstæði ritstjórna. Herra forseti. Ég vísa þeirri spurningu til hinna ágætu skýrsluhöfunda vegna þess að þeir þrítaka þetta fram í skýrslunni.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz gekk feti lengra vegna þess að hún vildi líka að settar yrðu sérstakar reglur um sjálfstæði blaðamanna gagnvart yfirmönnum á svona stöðum. Við áttum um það orðastað í dag. Mér þykir það athyglisverð hugmynd en ég er ekki viss um að hún sé framkvæmanleg. Þessi meginniðurstaða í skýrslunni sem menntmrh. sendi frá sér er ekki í frv.

Annað sem skiptir höfuðmáli er að sjálfsögðu að allur almenningur eigi greiðan aðgang að upplýsingum um hverjir eigi fjölmiðlana á Íslandi. Ég vil svar og ég tel að ég eigi sem almennur borgari heimtingu á að vita út í hörgul: Hverjir eiga Morgunblaðið? Hverjir eiga Fréttablaðið? Það var óþolandi staða á tímabili þegar menn vissu ekki hverjir eigendur Fréttablaðsins væru. Höfundar skýrslunnar eru mér sammála um þetta, eru þingflokki Samf. sammála um þetta. Þetta er annað höfuðatriðið í skýrslu okkar. Það kemur því miður ekki fram í drögunum.

Þessi ríkisstjórn hefur ekki góðan feril þegar kemur að umgengni við stjórnarskrána. Það er lágmarkskrafa þegar menn brjótast fram með umdeild frumvörp og ætla að láta samþykkja þau sem lög í hasti eins og hér að gengið sé úr skugga um að lögin brjóti þá ekki stjórnarskrána. Því miður, herra forseti, leikur vafi á því atriði.

Í fjölmiðlaskýrslunni sem við höfum til umræðu var ein helsta niðurstaða skýrslunnar að mínu viti að ekki ætti að setja afturvirk lög. Höfundar skýrslunnar skilgreina hvað afturvirk lög eru í þessu tilliti. Þeir segja að ef fyrirtæki sem fyrir eru á fjölmiðlamarkaði þurfi að riðla uppbyggingu sinni með kostnaðarsömum og þungbærum hætti til þess að laga sig að fyrirmælum nýrra laga séu það afturvirk lög. Þeir segja enn fremur að slík lög beri að varast vegna þess að þau reisi álitamál varðandi stjórnarskrá lýðveldisins, bæði hvað varðar vernd eignarréttar en einnig hvað varðar atvinnufrelsið. Mikilsvirtur lögmaður hefur síðan bætt þriðja atriðinu við. Höfundar skýrslunnar klykkja þess vegna út með því að lög sem kynnu að verða sett á grundvelli skýrslunnar ættu fyrst og fremst að hafa áhrif á fjölmiðla í framtíðinni, eða eins og segir, með leyfi forseta:

,,Af þessum ástæðum yrði því fyrst og fremst að horfa til áhrifa þeirra til framtíðar.``

Herra forseti. Nú liggur fyrir að það fyrirtæki sem lögin, ef sett yrðu, mundu helst varða, Norðurljós, þyrfti að endurskipuleggja sig með þungbærum og kostnaðarsömum hætti. Engum dylst að í þessu tilliti yrðu lögin samkvæmt skilgreiningu skýrsluhöfunda afturvirk. Þetta vita þeir stjórnmálamenn sem styðja frv. Hæstv. utanrrh. sagði í sjónvarpi í gær að hann hefði verið fullvissaður um að þetta bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Hið sama hafa ýmsir aðrir ráðherrar sagt. Ég er hins vegar ekki alveg jafnsannfærður og ég rifja upp, herra forseti, að þremur sinnum hafa þessir ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurft að segja að þeir hafi verið fullvissaðir um að lög sem þeir væru að láta samþykkja brytu ekki í bága við stjórnarskrána. Jafnoft hefur Hæstiréttur sent þá til baka með lagasetningu sem hann hefur komist að niðurstöðu um að brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég gef lítið fyrir það þó að hæstv. ráðherrar taki svona til orða. Ég vil þó taka það fram að ég geri því ekki skóna að menn séu vitandi vits að brjóta stjórnarskrána. Reynslan sýnir að þessir ágætu herrar umgangast stjórnarskrána af nokkru kæruleysi, svo ekki sé meira sagt.

Í fjölmiðlum hefur það jafnframt komið fram í spurningum fjölmiðlamanna til hæstv. ráðherra, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, að jafnvel þótt lögin --- ef samþykkt yrðu upp úr því frv. sem liggur fyrir þó að ekki sé það til umræðu hér --- stönguðust ekki á við stjórnarskrá kynnu þau að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð. Er réttlætanlegt að við ráðumst að tiltölulega lítt yfirveguðu máli á örfáum dögum í það að samþykkja lög sem kynnu að baka skattborgurunum mikla ábyrgð, hugsanlega sem hlypi á hundruðum milljóna? Það er ekki ábyrg frammistaða af okkar hálfu.

Hæstv. forsrh. hefur sagt að hann hafi líka verið fullvissaður um að svo sé ekki. Sem betur fer eiga allir menn vini og við þurfum alltaf á vinum að halda. Hæstv. forsrh. á einn vin sem hefur reynst honum betri en flestir aðrir, varið hann í líf og blóð, sama hvað á hefur dunið. Þetta er hæstaréttarlögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson. Sá ágæti hæstaréttarlögmaður sagði það álit sitt í tveimur fjölmiðlum í gær að mögulega mundi setning laga af þessu tagi baka ríkinu skaðabótaábyrgð. Með öðrum orðum eru þeir menn sem hæstv. forsrh. hefur jafnan litið til þegar þörf er á lögfræðilegri ráðgjöf við erfið álitaefni þeirrar skoðunar að hér sé um verulegt álitamál að ræða. Þetta tel ég nauðsynlegt að draga upp vegna þess að ekki síst Framsfl. virðist ekki gera sér grein fyrir þessu. Það er nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni að hæstv. utanrrh. sagði í fjölmiðli í gær þegar hann var spurður hvort það væri mögulegt að þarna skapaðist ábyrgð vegna setningar laganna að hann teldi svo ekki vera, en bætti við að ef svo væri yrðu þau náttúrlega að hafa heilsu til að endurskoða frv. Ég tel með öðrum orðum að það sé að renna upp fyrir forustu Framsfl. að ekki sé nægilega vel að þessu máli staðið.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, og mun gera frekari grein fyrir henni í seinni ræðu minni í kvöld að farsælast fyrir okkur í þessari stöðu væri að taka þetta mál sem sannarlega verðskuldar umræðu til gagngerrar yfirvegunar í þinginu. Það er hugsanlega hægt að samþykkja einstaka þætti sem gætu t.d. byggst á frv. Samf. sem sannarlega ráða bót á mörgum þeim vandamálum sem hér hafa verið reifuð en stóra málið eigum við að láta bíða yfir sumarið.