Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:47:04 (7033)

2004-04-28 20:47:04# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég beið spenntur eftir ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til að fá úr því skorið hver væri stefna Samf., alltjent stefna formannsins. Það er ekki um það að villast hver stefnan er. Hv. þm. telur allt í góðu lagi með þá stöðu sem uppi er á fjölmiðlamarkaðnum og í góðu lagi með þá þróun sem þar hefur verið.

En hvernig stendur á því að hann telur í dag að fyrirtæki sem hann vildi brjóta upp fyrir tveimur árum, vegna þess hvernig það færi með markaðsráðandi stöðu sína í smásölu og eftir það framferði sem sem hann taldi það hafa sýnt í öðrum málum, sé trúandi fyrir því stóra hlutverki sem það hefur tekið sér á fjölmiðlamarkaðnum?

Ef eitthvað er þá er fjölmiðlamarkaðurinn viðkvæmari en smásölumarkaðurinn fyrir því að menn misnoti markaðsráðandi stöðu sína. Hvernig stendur á því, ef hv. þm. leggur svo mikið upp úr því að við vitum hverjir séu eigendur fjölmiðlanna, að hann treystir þeim mönnum, sem leyndu því fyrir þjóðinni svo mánuðum skipti, svo missirum skipti, að þeir væru eigendur Fréttablaðsins, fyrir þeirri stöðu sem þeir hafa tekið á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hvað veldur því að hann hefur skipt um skoðun í þessum efnum? Hvað veldur því að Samfylkingin hefur skipt um skoðun frá þvi að formaðurinn flutti ræðu sína í umræðum um svipað mál í nóvember? Hvað veldur því að Bryndís Hlöðversdóttir og samflutningsmenn hennar hafa skipt um skoðun frá því að þau lögðu fram þáltill. sína fyrr í vetur?

(Forseti (HBl): Það ber að segja háttvirtur þingmaður.)