Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:00:17 (7039)

2004-04-28 21:00:17# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins og ég átti von á að lítið var um svör en þess í stað var þessum tveimur mínútum eytt í að lýsa einhverju sem hv. þm. þótti vera þess virði að eyða tveimur mínútum í. Það sem ég spurði hv. þm. einfaldlega um er þetta: Hann var ritstjóri á blaði sem var í eigu stjórnmálaflokks og reyndar tveimur, (MÁ: Ekki DV.) Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu, hv. þm. Miðað við það sem hefur verið sagt í þessum sal eiga blaðamenn að fá að vinna að þeim málum sem þeir vilja.

Virðulegi forseti. Ég vitna beint í ummæli hv. þm.: ,,vinna að þeim málum sem þeir vilja``. Er hv. þm. í fullri alvöru að halda því fram að ef Alþýðuflokkurinn sálugi væri á lífi, að vísu er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nú formaður þess flokks, en gefum okkur að hann gengi í endurnýjun lífdaga. (Gripið fram í.) --- Virðulegi forseti, er ekki hægt að koma þessu ágæta fólki á mælendaskrá? Það er svolítið erfitt að komast að þegar þau eru svona æst út af þessu máli. --- Hv. þm. heldur því fram að ef stjórnmálaflokkur eins og Alþýðuflokkurinn mundi gefa út blað með ritstjórnarstefnu í samræmi við það, að ef blaðamaðurinn væri þar ráðinn mætti hann bara gera það sem honum dytti í hug, burt séð frá hagsmunum eigendanna eða ritstjórnarstefnunnar. Það er það sem hv. þm. hefur sagt. (Gripið fram í.) Ætlast hv. þm. til þess að einhver trúi þessu? Hv. þm. sem hefur stýrt tveimur pólitískum blöðum? Ég get alveg fullyrt að þar, (Gripið fram í.) þó ég hafi ekkert út á störf hans sem ritstjóra að setja, voru ákveðnar línur gefnar og farið eftir þeim og menn gerðu ekki það sem þeir vildu. (Gripið fram í.)