Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:02:37 (7040)

2004-04-28 21:02:37# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er prýðilegur þingmaður og mikill efnispiltur. Ég, eins og hann, sat einu sinni í borgarstjórn Reykjavíkur og það tók mig nokkur ár að hrista af mér þennan skætingstón og þá tilhneigingu til útúrsnúninga sem einkennir marga sem hafa verið of lengi þar. Góðu heilli er hv. þm. að bjargast þaðan. Það kann vel að vera að hann lesi eitthvað sérstakt út úr ummælum mínum, en það sem ég átti við var ekki að hver einstakur blaðamaður, það er hugsanlegt að ég hafi orðað það með þeim hætti af óvarkárni, en það sem ég átti við var að starfsstöðin, ritstjórnin, gæti unnið að slíkum málum.

Ég komst oft í hann krappan, herra forseti, þegar ég var ritstjóri. En þó held ég að það hafi helst syrt í álinn þegar ég þurfti sem ritstjóri DV einu sinni í kosningum að henda starfsmanni Sjálfstfl. út sem var kominn inn á ritstjórnina til þess að skrifa heldur neikvæða hluti og var ekki einu sinni partur af starfsstöðinni. (Gripið fram í: Þetta skýrir málið mjög.)