Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:25:33 (7046)

2004-04-28 21:25:33# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:25]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um skýrslu nefndar menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi sem hæstv. menntmrh. flutti okkur. Þetta er góð skýrsla og ég held að flestir séu sammála því, mikið af nýjum, góðum og merkum upplýsingum. Við höfum góðan tíma til umræðu. Gefið hefur verið út að Alþingi situr á meðan þörf er til að ræða skýrsluna og frv. sem lagt var fram í dag en ekki er búið að veita samþykki fyrir að verði rætt. Þess vegna ræðum við frv. síðar og gefum okkur góðan tíma til þess. Umræðurnar eiga að sjálfsögðu, eins og alltaf á Alþingi, að draga fram kosti og galla, mat á stöðu og finna lausnir. Það er það sem við vinnum að.

Ég hef ætíð verið á móti óþörfum reglum á atvinnulífið (Gripið fram í.) og alltaf hvatt til varkárni í því að leggja klyfjar á það. Í þessu máli um fjölmiðla sem hefur verið mjög lengi til umræðu hef ég vísað á netið sem undankomuleið. Ég taldi líka að samkeppnislög gætu aðstoðað okkur í því að gæta þess að málin lentu ekki í ógöngum. En það hefur margt breyst, líka netið. Sú skýrsla sem við ræðum í dag leiðir meira að segja í ljós að tveir stórir netmiðlar, vísir.is og femin.is, sem ég fer nokkuð reglulega inn á, eru í eigu þess sama aðila og á þá fjölmiðla sem við erum að ræða um. Þannig að jafnvel netið er ekki lengur það skjól sem ég taldi vera. Í skýrslunni kemur líka fram að samkeppnislög duga ekki. Þar stendur, með leyfi herra forseta, á síðu 84:

,,Hér að framan er í 5. kafla lýst ákvæðum samkeppnislaga. Ljóst er að ákvæði laganna eiga við um fjölmiðlafyrirtæki með sama hætti og sömu takmörkunum og við eiga um önnur fyrirtæki. Sú spurning vaknar því hvort í þeim felist að óbreyttu nægilegar heimildir til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum samþjöppunar og samráðs fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði. Í þeim sérfræðilegu gögnum sem nefndin hefur aflað er þessari spurningu ávallt svarað neitandi.`` Það er það skjól og hald sem ég taldi vera í samkeppnislögum, segja höfundar skýrslunnar, og ég hef ekki ástæðu til að rengja það, að ekki sé hald í.

Herra forseti. Það er dálítill vandi að ræða fjölmiðla. Umræðan fær yfirleitt yfirvægi. Ef við værum að ræða eignarhald á bönkum eða sjávarútvegsfyrirtækjum eða iðnfyrirtækum væri þess getið svona í smáklausu á þriðju síðu og umræðu væri löngu lokið. Ég fullyrði það. En núna eru það forsíðufréttir fjölmiðla alla daga. Það er nefnilega svo að fjölmiðlar eru dálítið sjálfhverfir. Þeir eru mjög uppteknir af sjálfum sér. (Gripið fram í.) Þeir ættu að átta sig á því að almenningur hefur ekki áhuga á þeim sem flytur fréttirnar heldur á fréttunum sem slíkum.

Herra forseti. Oft er rætt um fjórða valdið til viðbótar við framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvald og það eru fjölmiðlar. Upplýsingar sem þeir veita koma frá alls konar fjölmiðlun; blöðum, tímaritum, útvarpi, sjónvarpi, netinu o.s.frv., heimasíðum, en líka frá orðspori og sögusögnum. Það má segja að ég sé að stunda fjölmiðlun núna því ræða mín berst til ykkar og meira að segja mjög víða. (Gripið fram í: Það er ekki ...)

Borgarinn þarf hlutlægar fréttir en líka mismunandi sjónarmið og skoðanir á atburðum til að geta myndað sér skoðanir og tekið afstöðu á lýðræðislegan hátt. Fjölmiðlar eru því mjög mikilvægir í þágu lýðræðisins og eru fjórða valdið. Það er ekkert skrýtið að einræðisherrar, og hefur kannski byrjað með nasistum Þýskalands, hafi fyrir löngu áttað sig á gildi fjölmiðla og nýti þá sér til hins ýtrasta.

[21:30]

(ÖS: Eru þessir menn nasistar?) Það má segja að það hafi byrjað þar, herra forseti.

Herra forseti. Það var einu sinni draumur manna að Ríkisútvarpið flytti hlutlausar fréttir. En að sjálfsögðu er enginn maður hlutlaus. Ég er ekki hlutlaus og aðrir eru ekki hlutlausir. Menn verða ekkert hlutlausir við það að verða fréttamenn. Hins vegar getur fólk æft sig í því að segja frá mörgum sjónarhornum. Það getur æft sig í því að láta mismunandi sjónarmið koma fram og það getur æft sig í því að ræða kosti og galla mála, ekki bara kosti eða bara galla. Það er svona ákveðin akademísk umræða. En fréttir geta verið alveg hlutlægar, t.d. fréttir af slysum. Þá er sagt hvað margir hafa slasast, fjölda farartækja o.s.frv. En sú frétt getur líka breyst í skoðanamyndandi frétt eða jafnvel áróður ef sá sem fréttina segir lætur þess getið að sjúkrabílar hafi verið seinir á vettvang vegna stjórnleysis eða skorts á fjármagni, jafnvel að slysið sé afleiðing stefnu stjórnvalda í vegamálum, með réttu eða röngu. Allt í einu er fréttin þá orðin lituð.

Ég vil benda á að fréttamenn eru líka einstaklingar. Þeir vilja halda vinnunni. Þeir vilja starfsframa, launahækkanir o.s.frv. Þeir yrðu t.d. hugsi ef markaðsráðandi fyrirtæki sem þeir starfa hjá eða sem á fjölmiðil sem þeir vinna hjá, kemst allt í einu í fréttirnar, sérstaklega ef það eru neikvæðar fréttir. Þá munu þeir vera dálítið hugsi. Auk þess er fólk hollt vinnuveitanda sínum. Fréttamenn eru því ekki óháðir eigendum sínum, langt í frá.

Í skýrslunni er getið um að vinna þurfi að því að setja reglur um óháða ritstjórn og ég er hlynntur því. En mér finnst að þær reglur eigi að koma frá fjölmiðlunum sjálfum. Þeir eiga að birta reglur um óhæfi ritstjórna frá eigendum þannig að trúverðugt sé. Það eiga þeir að gera sjálfir. Það gerum við ekki með lagasetningu vegna þess að eftirlitið yrði nánast útilokað.

Ég má til með að koma að því, herra forseti, hver sé munurinn á auglýsingu og fréttum. Þegar ég heyri auglýsingu fer ég alltaf í vörn. Ég veit að einhver er að segja mér af dásemdum vöru sinnar og ég tek svona 90% við því sem sagt er með miklum fyrirvara. Ef ég hlusta hins vegar á fréttir þá tek ég því fyrirvaralaust og er alveg opinn fyrir því sem fréttin segir.

Nú skulum við gefa okkur að ég eigi markaðsráðandi fyrirtæki á mörgum sviðum. Ég er bara að gefa mér dæmi sem alls ekki er til. Svo auglýsi ég fyrir hundruð milljóna á ári. Ég dreifi t.d. bæklingum fyrir milljónatugi. Ég veit að ég hef mjög takmörkuð og dempuð áhrif af því að þetta eru auglýsingar. Ég get ekki mótað skoðanir fólks nema í mjög litlum mæli á fyrirtæki sem ég rek eða á vöruna sem ég auglýsi af því að fólk er í vörn þegar það les auglýsingabæklingana frá mér. Þá fæ ég hugmynd. Hví skyldi ég ekki gefa út dagblað sem kostar jafnvel ekkert miklu meira? Í fyrsta lagi fæ ég auglýsingar og í öðru lagi fær fólkið skoðanir í fréttum sem ég hugsanlega get litað eilítið hvað varðar fyrirtækið sem ég rek. Mér sýnist að þetta sé bara dúndurbisniss. Og fréttamennirnir, sem að sjálfsögðu eru allir hlutlausir eins og kunnugt er, vita að ég sit í stjórn félagsins og þeir vita hvaða vörur ég er að selja í hinu markaðsráðandi fyrirtæki mínu. Og það er nú ekki amalegt að eiga góða að til þess að tala um rétt fólk og koma vörum fyrirtækisins í rétt ljós í fréttum, ekki í auglýsingum.

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í umræðunni fyrr í dag að aldrei í Íslandssögunni hefði verið meiri gróska í íslenskri fjölmiðlasögu. Ég er hjartanlega sammála, herra forseti. En hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að einhverjir aðilar eru að dæla milljörðum inn í fjölmiðlamarkaðinn til þess að græða, segja þeir, eða til þess að ná fram áhrifum. Ég veit það ekki. En það er staðreynd að settur hefur verið á laggirnar fjölmiðill sem er dreift ókeypis, Fréttablaðið, dagblað sem er dreift ókeypis á öll heimili landsins og það er staðreynd að mikið aukið nýtt fé hefur komið inn í aðra stærstu sjónvarpsstöðina. Þetta að er sjálfsögðu mjög örvandi fyrir fjölmiðlamarkaðinn, ekki spurning. En það er ekki endilega víst að það sé til góðs. Þá vil ég lesa úr skýrslunni, herra forseti. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

,,Nefndin telur að sé eingöngu horft til fjölda miðla og litið fram hjá eignarhaldi hafi þróunin undanfarin missiri verið á margan hátt jákvæð. Er í því sambandi bent á að haldið er úti þremur dagblöðum á landsvísu sem hafa markverða útbreiðslu, þ.e. Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og DV.

Þá verður að telja að skipting markaðar fyrir sjónvarp á þá þrjá aðila sem allir hafa marktæka stöðu á markaði sé ásættanleg þegar höfð er í huga smæð markaðarins.``

Allt er þetta fínt, herra forseti. En það stendur jafnframt:

,,Þegar litið er til eignarhalds og eignatengsla sérstaklega er aftur á móti ljóst að heildarmarkaður fyrir dagblöð, sjónvarp og hljóðvarp hefur ýmis þau einkenni sem talin eru óheppileg út frá þeim alþjóðlegu viðmiðunum sem hér er stuðst við og taldar hafa verið eiga við í öðrum löndum. Í því sambandi komu þessi atriði til skoðunar:``

Það er sem sagt eignarhaldið sem nefndin í skýrslunni telur ekki vera nægilega gott. Svo segja þeir auk þess, með leyfi herra forseta:

,,Á hinn bóginn verður ekki ráðið af þeim gögnum sem nefndin hefur aflað að það sé þekkt í öðrum löndum að aðili sem hefur hliðstæð umsvif í viðskiptalífi annarra landa og Baugur Group hf. hefur á Íslandi fari jafnframt með ráðandi hlut í jafnöflugu fjölmiðlafyrirtæki og Norðurljósum hf.``

Þeir benda sem sagt á þessar sérstöku íslensku aðstæður. Sú mikla gróska sem hv. þm. benti á er því ekki endilega af hinu góða.

Herra forseti. Hvað erum við að óttast eiginlega? Af hverju erum við með þessa skýrslu og frumvarpið?

Fyrir nokkrum dögum var mikil umræða sem stendur enn þá um lyfjaverð og lyfjaiðnaðinn og lyfjaverslun og allt það. Ég las fréttir í ýmsum blöðum og það er nú þannig þegar maður les fréttir að manni finnst þær stundum óskaplega litaðar. En þær eru það ekki endilega. Það er bara ég sem er litaður sem les þær. En mér fannst sem sagt fréttirnar af lyfjaiðnaðinum vera óskaplega litaðar. Það var talað við visst fólk sem átti voðalega bágt og þurfti lyf hvað sem það kostaði. Kostnaðurinn skipti engu máli. Það átti bara að kaupa alltaf bestu lyfin. Svo rann allt í einu upp fyrir mér ljós núna bara fyrir tveim dögum: Hver átti alla lyfjadreifinguna á Íslandi? Það var sami aðilinn og á þessi ákveðnu fréttablöð. Nú er ég ekki að segja að þetta sé neitt litað. Ég veit það ekki. Mér finnst það hins vegar. (Gripið fram í: Er það Árvakur?) Nei, herra forseti. Það var ekki Árvakur sem á ... (Gripið fram í: ... frú forseti.) Frú forseti. Áðan var það herra. Nei, það var ekki Árvakur. Mér finnst því (Gripið fram í.) ákveðin teikn vera á lofti sem ber alvarlega að varast vegna þess að þarna snýst spurningin um pólitík, um stjórnmál, um það hvernig maður myndar skoðanir á ákveðnum pólitískum málefnum, t.d. um það hvernig eigi að haga verslun með lyf sem eru greinilega miklu dýrari hér en annars staðar. Svo hefur netið líka brugðist vonum mínum því ég er að uppgötva að þar eru líka markaðsráðandi aðilar mjög sterkir inni.

Því miður hefur nefndin, frú forseti, takmarkað sig í skýrslunni við dagblöð og útvarp í víðasta skilningi. Ég sakna þess að sjá ekki umfjöllun um netið vegna þess að það er framtíðin ekki síður en útvarp, sjónvarp og dagblöð.

Herra forseti. Ég get ekki lokið ræðu minni án þess að fjalla um RÚV vegna þess að það er í raun í eigu eins aðila sem er markaðsráðandi á fjölda sviða, t.d. í heilbrigðismálum. Og umfjöllun RÚV um þau mál sem eigandinn er markaðsráðandi í eru einmitt því marki brennd sem ég er að nefna hérna. Auk þess eru starfmennirnir opinberir starfsmenn þannig að ég geri alltaf fyrirvara þegar RÚV ræðir um kjör opinberra starfsmanna, eðlilega, vegna þess að enginn er óháður. (Gripið fram í.)

Fyrr í vetur var lagt fram á þessu þingi frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni um einkavæðingu RÚV. Í umræðu um það komu fram eingöngu andmæli eða viðvaranir frá hv. þingmönnum Samf. og aðalrökin gegn frv. og þau einu sem heyrðust í umræðunni voru þau að Stöð 2 mundi gleypa RÚV. Það voru einu rökin. Þeir óttuðust sem sagt einmitt það sem þessu frv. er ætlað að berjast gegn, þ.e. að enn meiri samþjöppun verði í eignarhaldi á fjölmiðlum. Ég treysti því að ef þetta frv. sem hér liggur frammi verður að lögum verði hægt að einkavæða RÚV.