Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:08:55 (7064)

2004-04-28 22:08:55# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:08]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða er orðin nokkuð löng og þó ekki útilokað að hún verði í einhverja stund í viðbót. Hún er í sjálfu sér búin að vera ágæt og það er skoðun mín að þetta sé mál af því taginu að það sé þess virði að fara vel í gegnum það. Ég tel og ég held að allur þingheimur telji mjög mikilvægt að við flýtum okkur ekkert hvað það varðar, heldur förum gaumgæfilega yfir það. Hún er að vísu örugglega ekki ný af nálinni, umræðan um eignarhald fjölmiðla, þó að segja megi að eitthvað sé nýtt, þ.e. þessi ítarlega skýrsla sem liggur fyrir og mikið hefur verið vitnað í. Ég held að flestir séu sammála um að hún sé vel unnin og mikið á henni að græða.

Í mínum huga er hins vegar þetta mál mjög einfalt. Það snýst um að við munum horfa á það að hér verði fleiri markaðsráðandi fyrirtæki en gengur og gerist annars staðar. Það held ég að liggi alveg fyrir. Svo sannarlega hefur maður oft þurft að verja það því að mörgum hefur ekki fundist það vera skynsamlegt eða réttlátt. Til dæmis hefur verið vitnað í, ekki bara vitnað í, heldur fór formaður Samf., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, yfir það í dag að hann hefði talið á sínum tíma og farið yfir það að mikilvægt væri að brjóta upp stórt fyrirtæki á matvörumarkaði sökum þess að það væri of sterkt og hann hefði þá skoðun á grundvelli skýrslu sem hann vitnaði í fyrir nokkrum missirum. Ég tel að við komumst ekki hjá slíku uppbroti, hvort sem okkur líkar betur eða verr, við erum tæplega 300 þús. manna þjóð. Ég man ekki hvort það eru jafnmargir íbúar í Hull eða Grimsby en það er í annarri hvorri borginni --- ég held að það sé í Hull --- sem eru um 300 þús. íbúar og svo sannarlega erum við með öflugra og fjölbreyttara líf en gengur og gerist í jafnfjölmennum samfélögum, sem betur fer. Það verður vonandi þannig um alla framtíð.

Spurningin er hvort okkur finnist ásættanlegt að markaðsráðandi fyrirtæki stjórni umræðunni um sjálf sig, ef svo má að orði komast. Síðan geta menn eðli málsins samkvæmt haft allar skoðanir á því. Menn geta talið það eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Síðan eru aðrir sem telja það ekki æskilega umræðu í þjóðfélaginu og það sé ekki æskilegt lýðræðinu að sá háttur sé hafður á.

Það er ljóst að frv. sem hér liggur fyrir er byggt á þeirri hugmynd að menn telji ekki eðlilegt að markaðsráðandi fyrirtæki stjórni líka umræðunni eða séu eignaraðilar í fjölmiðlum nema að takmörkuðu leyti. Ef við berum okkur saman og segjum, eins og maður hefur heyrt í umræðunni: Er þetta ekki algjört einsdæmi í íslenskri löggjöf? Heyrst hefur að hvergi annars staðar sé verið að taka jafnsterkt á þessum málum og með væntanlegum lögum um fjölmiðla. Það stenst ekki skoðun, það þekkja allir ströng lög um sjávarútveg, um hámark á aflahlutdeildum fyrir heimildum fyrir tiltekin fyrirtæki. Ef ég man rétt telja lögin um fjármálafyrirtækin 116 greinar, virðulegi forseti. Ef menn fara í gegnum þau má sjá ýmsar hindranir um hvernig þau fyrirtæki geta hagað sér og sömuleiðis í hvaða fyrirtækjum þau geta átt o.s.frv.

Við þekkjum öll samkeppnislögin. Þar er sömuleiðis einn lagabálkur þar sem svo sannarlega eru settar ýmsar skorður og leikreglur hvað atvinnulífið varðar.

Fyrir þingi núna liggur frv. um orkumál þar sem gert er ráð fyrir því að með einum eða öðrum hætti sé flestum orkufyrirtækjum landsins skipt upp, þó sérstaklega Landsvirkjun.

Ef við skoðum hvort þetta sé einsdæmi í löggjöf í þeim löndum sem við berum okkur saman við er ágætt að fara yfir þessa skýrslu. Í henni sér maður að hin ýmsu lönd hafa strangar reglur um fjölmiðla. Það sem vekur athygli manns varðandi reglur í t.d. Noregi, Danmörku, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum er að það er ekki samræmi í þeim. Nú er ýmislegt samræmt í t.d. Evrópusambandinu en aðstæður eru mjög mismunandi og lögin líka hvað þá þætti varðar í þessum löndum. Ég gat ekki séð á yfirferð minni yfir skýrsluna að nein lönd væru með nákvæmlega eins löggjöf hvað þetta varðaði. Ef maður fer í gegnum þau lönd sem eru tilgreind í skýrslunni held ég að ástandið á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi mundi nokkurn veginn án undantekninga aldrei ganga upp innan þeirra lagaramma sem þar er um að ræða. Ef við berum okkur saman --- að vísu vísa ég til þess að t.d. í Frakklandi er áhorf og annað slíkt miðað við milljónir manna --- og setjum áhorfið í eitthvert hlutfall við prósentur get ég ekki séð að núverandi aðstæður á Íslandi mundu rúmast innan nokkurra þessara lagaramma.

[22:15]

Umræða um þessi mál fer ekki bara fram hér á landi. Ég er áskrifandi, og hef lengi verið, að ágætu tímariti sem heitir The Economist. Þar hafa menn farið afskaplega mikinn í umræðunni um eitt ákveðið land, Ítalíu nánar til tekið. Þeir fara mjög stórum orðum um ástandið þar vegna áhrifa forsætisráðherrans í fjölmiðlum þar í landi. Þeir telja að ástandið þar sé engan veginn ásættanlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Það segir sig hins vegar sjálft að eðli málsins samkvæmt, þegar farið er í löggjöf eins og þessa, þarf að vanda til verksins og horfa til margra þátta. Ég vonast til að hér á þingi, bæði í umræðum á þinginu sem og í nefnd, fari menn gaumgæfilega yfir þessa þætti. Ég held það eigi ekki við neina löggjöf að hún sé hafin yfir alla gagnrýni. Ég efast um að við séum búin að skrifa hinn fullkomna texta í lagabálka eða í frumvörp. Það hlýtur að vera hlutverk okkar að fara málefnalega yfir frv. og meta svo hvort gera þurfi einhverjar breytingar. Svo sannarlega eru álitaefnin mörg.

Ég sakna þess þó nokkuð, þótt ég vilji ekki halda því fram að það hafi verið án undantekninga í umræðunni í dag, að menn hafi varið tíma sínum í að fara efnislega yfir ýmsa þætti. Ég átti von á því að þeir aðilar sem hafa kannski gagnrýnt frv. hvað mest hefðu einhverjar aðrar útfærslur varðandi þetta frv. Ef við vísum í þá aðila sem gagnrýnt hafa frv. hvað harðast, þ.e. þingflokk Samf., þá hafa flestir þingmenn Samf. verið að draga í land í þessari umræðu. (Gripið fram í: Nú?) Ég hef einungis heyrt hv. þm. Helga Hjörvar segja að hann sæi enga ástæðu fyrir neinum takmörkunum hvað þetta varðaði. Ég heyrði engan annan þingmann Samf. tala með þeim hætti.

Ég vísa m.a. í ágæta ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, þar sem hún fór yfir ýmsa þætti. Mér þótti að vísu, þótt sá ágæti þingmaður sé málefnaleg og fari oft afskaplega vel með mál, nokkuð óljóst þegar hv. þm. fór yfir lausnirnar í stöðunni. Hún talaði m.a. um að það væri nær að hafa þetta sambærilegt og í samkeppnislögunum, þ.e. að menn gætu haft markaðsráðandi stöðu, en síðan væru viðurlög við því ef markaðsráðandi stöðu væri misbeitt, að við hefðum sambærilega löggjöf hvað varðar fjölmiðlana.

Nú verða menn að fyrirgefa mér það að ég er mikill áhugamaður um hvaða leið Samf. fer í þessu máli. Ég leyfi mér því aðeins að vitna í það sem formaður flokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur sagt um þetta mál. Hann hefur verið á svipaðri línu. Svo ég vitni beint í hann, í viðtal við hann í Ríkisútvarpinu, með leyfi forseta, þá segir hann þegar rætt er um slíka stöðu:

,,Væntanlega er það að ófyrirleitinn eigandi hann komi upp samræmdri ritstjórnarstefnu sem hann notar síðan til þess að skaða einhvern stjórnmálamann, stjórnmálaflokk eða fyrirtæki sem hann er í samkeppni við.``

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum á að hafa eftirlit með þessu? Hvernig í ósköpunum? Ætla menn að hafa einhverja fjölmiðlastofnun sem á að fylgjast með því hvort viðkomandi fjölmiðill reyni að koma höggi á samkeppnisaðila eiganda eða stjórnmálamann sem honum er illa við? Ég held að hver og einn sjái að þetta gengur aldrei upp. Því síður mundu ganga upp hugmyndir sem hér hafa verið á lofti, um þetta ritstjórnarlega frelsi. Ég held að bæði fjölmiðlamenn og fjölmiðlar setji sér markið hátt og vilji gera hlutina eins vel og mögulegt er. En mér þykir afskaplega hæpið, sem menn vitna grimmt í úr skýrslunni, að ritstjórnarlegt frelsi komi til með að leysa allan vanda.

Ég ætla aðeins að vitna í skýrsluna en á bls. 91 segir, með leyfi forseta:

,,Þótt vissir örðugleikar hljóti jafnan að vera á því að framfylgja slíkum reglum er mögulegt að þær geti verið blaðamönnum og ritstjórum nokkur vernd gagnvart afskiptum og aðgerðum eigenda vegna umfjöllunar þeirra fyrrnefndu um almenn málefni sem eigendur telja andstæða viðskiptalegum hagsmunum sínum.``

Svo mörg voru þau orð. Það liggur fyrir og það sér líka hver maður að ef einhver aðili á fjölmiðil þá hlýtur hann að hafa frelsi til að stjórna honum. Þetta eru hans fjármunir, hann getur haft sitt áhugamál og fjölmiðlar eru margvíslegir. Ef hann vill framfylgja ákveðinni ritstjórnarstefnu eins og gengur og gerist, t.d. um blöð um allan heim, þá hlýtur honum að vera það frjálst. Það er ekki hægt að banna tilteknum aðila slíkt. Gefum okkur að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson ætti fullt af peningum og tæki ákvörðun um að setja upp fjölmiðil. Halda menn þá að hægt sé að banna hv. þm. að hafa t.d. þá ritstjórnarstefnu að berjast gegn kvótakerfinu? Gefum okkur að hann væri að stýra blaði sínu, segjum að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson væri ritstjóri og honum, af einhverjum ástæðum, litist vel á einhvern af þingmönnum sjálfstæðismanna sem dytti í hug að leggja inn umsókn og færi síðan að skrifa eftir sannfæringu sinni um kvótakerfið. Ættu þá viðkomandi, eigandi blaðsins og ritstjóri, bara að hlíta því, staðan væri sú að þetta væri sannfæring viðkomandi blaðamanns, að kvótakerfið væri það besta sem fyrir íslenska þjóð hefði komið? Ætti þá eigandinn að sitja uppi með það þar sem slíkar reglur væru í gangi? Það sér hver maður að þetta gengur auðvitað ekki upp. Auðvitað náum við ekki neinni fullkomnun í þessu.

Menn hafa talað vel um ýmsa fjölmiðla, m.a. Ríkisútvarpið. Það er ágætisfjölmiðill þótt ég sjái þann ágæta fjölmiðil ekki sem upphaf og endi alls. Ég hef svo sem ekki breytt skoðun minni á því, að mér þykir mikilvægt að skilgreina hvert hlutverk þess á að vera. En við náum aldrei fullkomnun, hvorki þar né annars staðar, með reglum sem geri að verkum að eitthvað verði til sem heitir hlutlaus fréttamennska. Það er ekki svo. Menn þurfa að setja almennar leikreglur til að sjá til að hér séu a.m.k. eins margir fjölmiðlar og mögulegt er og þeir séu ekki allir á sömu hendi. Það getum við gert sem löggjafi. Síðan þurfum við eðli málsins samkvæmt að vanda það verk. Ég held að það sé vilji allra.

Spurningin er einfaldlega þessi: Vilja menn að þessi markaðsráðandi fyrirtæki stjórni umræðunni um þau sjálf? Telja menn að það sé algjörlega hættulaust og ekki vert að hafa neinar áhyggjur af því? Ef svarið er já, virðulegi forseti, þá eru menn eðli málsins samkvæmt á móti hugmyndum sem koma fram í skýrslunni, í frumvarpinu og hugmyndum í þá veruna. Ef ekki þá leita menn annarra leiða. Þessi skýrsla er ágætisgrunnur til að vinna á og ég tel að þetta frv. sé prýðilegt þótt fara þurfi yfir alla þætti þess og meta hvort eitthvað megi gera betur.