Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:24:12 (7065)

2004-04-28 22:24:12# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:24]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir innlegg hans. Hann hefur nokkra reynslu af fjölmiðlamarkaði og ég vil kannski spyrja hann fyrst um þau ár er hann var framkvæmdastjóri hjá Fínum miðli, hvort hann hafi upplifað rekstrarskilyrði ljósvakamiðlanna með þeim hætti að það væri ástæða til að koma í veg fyrir að sterk og öflug fyrirtæki gætu verið þeim bakhjarlar. Eða hefur hann af þeirri reynslu dregið þá ályktun að frjálsir ljósvakamiðlar sem keppa við Ríkisútvarpið þurfi þvert á móti sterka og öfluga bakhjarla?

Hins vegar spyr ég hvort hann telji að það ákvæði sem er að finna í frumvarpinu, sem bannar markaðsráðandi fyrirtækjum yfir höfuð að fjárfesta í ljósvakanum upp á 1%, hefði ekki komið í veg fyrir uppbyggingu fjölmargra af hinum svokölluðu frjálsu fjölmiðlum, ef það ákvæði hefði verið í gildi alla síðustu öld. Eins spyr ég hvort hv. þm. viti um eitthvert land í veröldinni þar sem markaðsráðandi fyrirtækjum er algerlega með öllu bannað að leggja eina krónu í frjálsa fjölmiðlun á ljósvakamarkaði.