Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:25:42 (7066)

2004-04-28 22:25:42# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:25]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla þá hef ég haft skoðanir á því í gegnum tíðina, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar þekkir. Þær hafa ekkert breyst. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni að ég teldi mikilvægt að menn mundu t.d. skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég tel það mjög mikilvægt. Það sem gerði rekstri frjálsra fjölmiðla erfitt fyrir áður var t.d. menningarsjóðsgjald, veltuskattur sem var ansi snúinn fyrir þá aðila sem stóðu í þeim rekstri. Hann er sem betur fer farinn. Það segir sig sjálft, sama hver reksturinn er, að eðli málsins samkvæmt er gott að hafa sterka bakhjarla. Nema hvað?

Menn eru hins vegar að tala um hvað hafi breyst, t.d. fór hv. þm. Helgi Hjörvar í ágætri ræðu sinni yfir hluti sem gerðust fyrir 20 árum og 9 árum. Það sem hefur sem betur fer breyst í íslensku samfélagi er að hér eru meiri peningar í umferð en áður. Hér er meira af sterkefnuðum einstaklingum en áður. Það held ég að allir sjái. Ég er því tiltölulega bjartsýnn á íslenskt efnahagslíf yfir höfuð hvað þetta varðar.

Varðandi spurningu hv. þm. um hvort ég vissi um eitthvert land þar sem markaðsráðandi fyrirtækjum væri algjörlega bannað að fjárfesta í ljósvakamiðlum þá hef ég nú ekki skoðað það út í hörgul. Ef við förum hins vegar yfir aðstæður hér á landi þá horfa málin öðruvísi við. Mér finnst stundum ágætt að bera okkur saman við bæjarfélög úti í heimi, þar eru borgir yfirleitt fjölmennari en allir landsmenn hér, og ég veit ekki um neitt bæjarfélag eða samfélag með í kringum 300 þúsund manns með aðstæður eins og á Íslandi. Ég veit ekki einu sinni um samfélag með milljón manns sem býr við aðstæður eins og hér á Íslandi. Það væri hægt að halda langar ræður um það. Ég hef svo sem líka skrifað um það og talað um það. Ég er afskaplega stoltur af því hve margt er mikið betra hér en annars staðar.