Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:29:19 (7068)

2004-04-28 22:29:19# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:29]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það fór fram hjá mér að ég hefði fengið einhverjar erfiðar spurningar. Kannski hv. þm. Helgi Hjörvar útskýri fyrir mér á eftir í hverju þær fólust.

Varðandi Fínan miðil vil ég leiðrétta hv. þm. Það var ekki rétt hjá honum að fyrirtækið hefði leitað skjóls hjá Norðurljósum. Sagan er örlítið flóknari og lengri. Hvað sem því líður vil ég bara spyrja hv. þm., hann getur kannski svarað því seinna í umræðunni: Hvaða land í heiminum er með þær aðstæður á fjölmiðlamarkaði sem eru hér á Íslandi? Hvaða land er það?

Ef hv. þm. hefur hlustað á ræðu mína áðan og skoðað skýrsluna þá veit hann að engar reglur eru eins á milli landa hvað varðar fjölmiðla. A.m.k. hafa engin landanna í þessari skýrslu nákvæmlega eins reglur, væntanlega vegna þess að þar eru mismunandi aðstæður.