Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:32:47 (7070)

2004-04-28 22:32:47# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:32]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beið nú eftir einhverri spurningu, einhverju sem til mín væri beint. Eina sem ég náði eða ég veit það ekki, maður þarf væntanlega að leggja, virðulegi forseti, út af einhverju sem hv. þm. sagði. Hann sagðist ekkert skilja í mér og ég verð að viðurkenna, (Gripið fram í.) ég verð bara að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég bara fagna því. Ég tel það vera góðs viti að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson skilji ekki hvað ég er að fara. Ég held að það hljóti að vita á gott og verð að viðurkenna að mér fannst afgangurinn af andsvari hans vera svona einhver sérkennilegur bræðingur, hann var að tala um frelsið og það er augljóslega hv. þm. ekki mjög tamt, en datt þó niður á hugtak sem hann notar oft sem er nýliðun og þá fór hv. þm. vel í gang og það er vel.

Hins vegar liggur það fyrir að í þessu máli sem öðrum þurfa menn að fylgja sannfæringu sinni. Það er bara þannig og menn þurfa að fara yfir málið. Og af því hv. þm. kallar mig frjálshyggjumann þá hef ég nú alltaf litið á mig sem sjálfstæðismann. Vissulega er frjálshyggjan annar af tveim meginþáttum í hugmyndafræði Sjálfstfl. en það liggur hins vegar fyrir án þess að ég fari út í nein smáatriði varðandi það að ég hef nú seint talist með mestu frjálshyggjumönnum í mínum góða flokki. En það breytir engu. Það sem skiptir máli er að við sköpum hér leikreglur fyrir gott samfélag og sköpum frelsi í viðskiptum og sjáum til þess að einstaklingar fái að njóta sín. Ég held að frv. sé liður í því og ég hélt að ég hefði farið ágætlega yfir það áðan en augljóslega ekki þannig að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson skildi mig, en eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, ég veit ekki hvort það er galli.