Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:35:12 (7071)

2004-04-28 22:35:12# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:35]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst svar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar lýsa alveg ótrúlegum hroka og lítilsvirðingu, ótrúlegum hroka. Ég kem upp í ræðustól til að grennslast fyrir um hvað hv. þm. er að fara og reyna að spyrja spurninga varðandi það hvort hann telji sig vera að fylgja hugsjónum sínum eða ekki og hann kemur upp og segir að það sé honum bara til tekna að ég skuli ekki skilja hvað hann er að fara. Mér þætti fróðlegt að sjá hvort hv. þm. treystir sér til að svara þjóðinni með þeim hætti að öll þjóðin skilji. 70% af þjóðinni spyr sig núna hvað ríkisstjórnin sé að fara með frv. Er þetta svarið? Ha? Þetta er hroki og ekkert annað. Alvarlegur hroki.

Ókei, þingmaðurinn vill fá spurningu. Þá vil ég spyrja hann að því: Er það í samræmi við hugsjónir hv. þm. að verið sé að reyna að koma í gegnum þingið, hið háa Alþingi, frv. sem greinilega mun leggja nýliðun í íslenskri fjölmiðlun í rúst, mun hreinlega leiða til stöðnunar í íslenskri fjölmiðlun og fákeppni?