Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:36:28 (7072)

2004-04-28 22:36:28# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:36]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fannst eitthvað lítið til svarsins koma en ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því í fyrra andsvarinu hver spurningin var. Hér kom a.m.k. ræða sem við tókum eftir sem sitjum eða stöndum í þessum sal. Síðan kom spurning sem var í rauninni nokkuð gildislæg og gekk nokkurn veginn út á það að himinn að jörð mundu farast ef frv. yrði samþykkt og hvort ég teldi það vera rétt og í samræmi við hugsjónir mínar að samþykkja það. Ég held að þingmaðurinn viti hvert svarið er. Ég var að reyna að fara yfir það í ræðu minni hvers vegna ég teldi það vera mikilvægt að við settum löggjöf hvað þetta varðaði. Ég vísaði í ýmsa þætti. Ég vísaði í skýrsluna. Ég vísaði í hvað menn væru að gera í öðrum löndum og annað slíkt. Og ef hv. þm. segir samt sem áður að hann skilji ekki hvað ég er að fara þá er ekkert sem ég get gert við því. Það er bara þannig. (MÞH: Þú gerir þér ekki grein fyrir afleiðingunum.)