Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:38:49 (7074)

2004-04-28 22:38:49# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:38]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vitnaði í varðandi ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur var það að ef ég skildi hv. þm. rétt þá hefði hún áhyggjur af málinu. Hún taldi hins vegar að leiðin væri sú að gera svipað og í samkeppnislögunum að ef menn misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína ætti að grípa til aðgerða og ég áttaði mig ekki á hvernig ætti að fara að því. Á svipuðum nótum talaði formaður flokks hennar.

Hvað það varðar hvort 1% hlutur væri í lagi hjá markaðsráðandi fyrirtæki eða hvort það væri nákvæmlega rétta leiðin, þá er það væntanlega það sem við erum að ræða í þinginu. Ef aðrar hugmyndir og betri koma sem ná því markmiði sem ég tel vera afskaplega mikilvægt, þ.e. að markaðsráðandi fyrirtæki stjórni ekki að stærstum hluta umræðu um sjálf sig, hljótum við að sjálfsögðu að fara yfir það. Það segir sig sjálft. Ég fór vel yfir það að væntanlega hefðum við ekki náð fullkomnun í því í þessum frumvarpsdrögum frekar en öðrum frumvarpsdrögum í þinginu. (Forseti hringir.) Ef aðrar hugmyndir eru betri er ég til í að hlusta.