Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:40:03 (7075)

2004-04-28 22:40:03# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:40]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi ekki fyllilega skilið ræðu mína vegna þess að ég var ekki að segja að þetta væri lausn sem slíkt. Ég var að bera þarna saman ákveðna hluti og draga það fram að markaðsráðandi staða er ekki glæpur í sjálfu sér. Telur hv. þm. virkilega að þörf sé á því að koma algjörlega í veg fyrir fjárfestingu markaðsráðandi fyrirtækja í ljósvakamiðlum? Telur hv. þm. þetta nauðsynleg afskipti og nauðsynleg höft í viðskiptalífinu? Telur hann þessi fyrirtæki það hættuleg að þau megi ekki undir neinum kringumstæðum eiga eitt einasta prósent í ljósvakamiðlum? Þessu hlýtur hv. þm. að þurfa að svara ef hann ætlar að styðja frv. sem hér liggur fyrir, vegna þess að það gerir ráð fyrir þessu. Það gerir ekki ráð fyrir ráðandi hlut. Það gerir ekki ráð fyrir 10%, 25% eða 30%. Það gerir ráð fyrir að þessi fyrirtæki megi ekki eiga eitt einasta prósent í ljósvakamiðlum. Það hlýtur hv. þm. að styðja ef hann styður framkomið frv. ríkisstjórnarinnar.