Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:42:28 (7077)

2004-04-28 22:42:28# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég get glatt síðasta hv. ræðumann með því að hér er enginn að draga í land og allir samfylkingarmenn sammála sem hafa talað. Vegna þess að hv. þm. býr yfir þeirri einstæðu reynslu á þingi að vera ekki aðeins fyrrverandi fjölmiðlamaður eins og margir eru hér, heldur hefur komið að fyrirtækjarekstri á fjölmiðlasviði, væri fróðlegt að heyra hann svara tveimur eðlilegum spurningum sem eru þessar:

Það er ljóst að frv. sem hér er til umræðu veikir möguleika fjölmiðlafyrirtækja á því að fá fjármagn. Hvaðan er helst von fjármagns í framtíðinni eftir að frv. hefur verið samþykkt?

Á hinn bóginn af því að ég veit að hv. þm. er sögulega sinnaður og hefur ánægju af upprifjun úr Íslandssögunni, hvernig færi uppbygging Morgunblaðsins annars vegar og Norðurljósa fram núna ef sú uppbygging færi fram við þær forsendur sem frv. gerir ráð fyrir þegar það verður að lögum?