Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:43:35 (7078)

2004-04-28 22:43:35# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:43]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir málefnalegar spurningar. Hann spurði fyrst eða lagði réttilega út af því að frv. geri það að verkum að það veiki væntanlega möguleika ljósvakafjölmiðla til að ná í fjármagn og spurði mig, ef ég skildi hv. þm. rétt, hvaðan fjármagn ætti þar af leiðandi að koma ef markaðsráðandi fyrirtæki væru ekki í þeim potti.

Ég vitnaði í það áðan og ég held að allir sem skoði það --- og ég þekki það nokkuð og af því að vitnað var í starfsreynslu mína þá hef ég svo sem starfað á ýmsum stöðum og m.a. í bankakerfinu --- viti að það eru mun fleiri aðilar sem hafa fjármagn á milli handanna og þá hærri upphæðir en gengur og gerist. Ég held því að sú staða sé uppi núna að það séu mun fleiri en bara markaðsráðandi fyrirtæki sem geta fjárfest í þessum miðlum. Það er mín staðfasta trú.

Varðandi uppbyggingu á Morgunblaðinu og Norðurljósum vísa ég náttúrlega í fyrra svar mitt hvað það varðar. Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að einu fyrirtækin og einu aðilarnir sem vilja fara í fjölmiðlarekstur, og þannig hefur það ekki verið, séu aðilar sem stjórni stærstu fyrirtækjum landsins eða eigendur þeirra.